sunnudagur, 23. september 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nú verður tekið á því

19. apríl 2018 kl. 06:00

Bjarni Þór Jakobsson hefur farið á grásleppu síðan 1974. MYND/JÓN PÁLL ÁSGEIRSSON

Bjarni Þór Jakobsson býr sig undir grásleppuvertíðina

 Nú verður tekið á því,“ segir Bjarni Þór Jakobsson, þar sem hann gerir Jakob Leo RE-174 kláran á grásleppuna. Bjarni Þór hefur farið á grásleppuveiðar síðan 1974 og man tímana tvenna í þeim veiðiskap.

gugu@fiskifrettir.is

„Ég keypti bátinn árið 2000 og fer yfirleitt alltaf á grásleppu á vorin. Ég byrjaði á þessu bulli 1974. Þeir segja að það sé hægt að afvatna alkana en það er ekki hægt að afvatna okkur trillukarlana. Þetta er í blóðinu og vorið er ekki komið fyrr en maður hefur lagt grásleppunet. Ég hálf tryllist alltaf á þessum árstíma. Samt er þetta alveg á mörkunum að standa undir sér. Dagarnir eru orðnir svo fáir sem má veiða. Í gamla daga voru þetta alltaf þrír mánuðir. Við byrjuðum alltaf 20. apríl og vorum að til 20. júlí. Þá skar maður líka grásleppuna úti á sjó, hirti hrognin og henti grásleppunni. 2010 fór maður svo að skera grásleppuna á annan hátt og hirða hana. Þá fengum við um 60 kr. á kílóið bara fyrir grásleppuna og það dekkaði alveg olíukostnaðinn. Núna vilja menn bara fá hana heila og gera að henni sjálfir,“ segir Bjarni Þór.

Hann segir að þetta komi dálítið niður á afköstunum. Báturinn hans er fimm tonn og ef það er einhver veiði að ráði þá er báturinn strax orðinn kjaftfullur.

„Grásleppan er svo fyrirferðamikil með hrognunum. Ég hef komist mest í að ná tveimur tonnum en þá var báturinn líka kjaftfullur.“

Kaupendur eitthvað að þenja sig

Fiskkaup hafa keypt megnið af grásleppunni af Bjarna Þór. Hann segir að í gegnum árin hafi verðþróun á hrognunum verið afar sveiflukennd. En frá árinu 2010 hafi þó verið meira jafnvægi í verðunum.

„Þeir eru eitthvað að þenja sig núna kaupendurnir. Það vantar hrogn inn í landið og það er nú ekki oft sem kaupendurnir tilkynna um „byrjunarverð“.“

Bjarni Þór er með bátinn í smábátahöfn Snarfara og var þar að dytta að honum. Hann ætlar að byrja að leggja netin í næsta mánuði. Það sem bjargi honum fyrir horn sé að eiga bátinn skuldlausan og öll veiðarfæri. Hann hefur ekki tekið þátt í strandveiðunum og segist ekki hafa þolinmæði í það. Hann hefur verið með 100-150 net.

„Ég hef verið einn á og þetta er það sem ég ræð við að leggja einn. Ég hef verið að leggja alveg frá Gróttunni og að Kjalarnesi. Það getur verið veiði þarna upp frá og þá kemur kannski ekkert í netin hérna suður frá. Eða öfugt. Það er gott að dreifa þessu aðeins ef annar hvort staðurinn klikkar.“

Annars rekur Bjarni Þór fyrirtækið B&B gluggatjaldahreinsun og hefur haft yfirdrifið nóg að gera í því. Nýlega fjárfesti hann í hátíðnivél sem hreinsar gluggatjöld og hefur létt honum mikið störfin.