miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýr á hrefnuveiðum: Hefur veitt fimm dýr

8. ágúst 2009 kl. 09:13

,,Við fórum í fjórar veiðiferðir í júlí og fengum samtals fimm hrefnur í Faxaflóanum. Það hefur gengið ágætlega að finna hrefnuna, veiða hana og gera að henni. Báturinn má ekki minni vera til þessara veiða en þetta sleppur í góðu veðri,” sagði Þórður St. Lárusson útgerðarmaður Hafsteins SK sem er nýgræðingur á þessum veiðum.

Sem kunnugt er ákvað sjávarútvegsráðherra í vor að öllum þeim sem uppfylltu ákveðin skilyrði gæfist kostur á að fara á hrefnuveiðar í sumar. Nokkrir nýir aðilar sem ekki hafa stundað þessar veiðar á undanförnum árum hafa verið að undirbúa sig til veiða, en aðeins Hafsteinn SK er kominn í gang. Hinir bátarnir sem eru að græja sig eru Sæljón SU og Sproti SH.

,,Við höfum ekkert farið út síðustu tvær vikurnar, bæði vegna þess að veðrið hefur verið óhagstætt og eins bilaði hjá mér byssan. Auk þess hefur mannskapurinn verið í fríi og  verið að skjótast í hreindýraveiðar. Við erum alveg rólegir í þessu,” sagði Þórður.

Fjórir eru í áhöfn Hafsteins SK á hrefnuveiðunum. Skipstjóri er Ólafur Sigurðsson sem hefur reynslu af hrefnuveiðum frá fyrri tíð en það var skilyrði fyrir því að veiðileyfið fengist. Kjötið er selt í kjötvinnsluna Esju. Að sögn Þórðar er endanlegt verð ekki fastákveðið en talað er um 500-600 krónur á kílóið upp úr bát. Hann sagði að ekki væri markaður fyrir spikið af hrefnunni þar sem rengi af langreyði væri nú fáanlegt og það væri talið betra.