sunnudagur, 24. mars 2019
 

Sextíu prósent smábáta aðstöðulausir

Faxaflóahafnir gerðu skoðanakönnun meðal smábátaeigenda og gefa til kynna vilja til efla smábátaútgerð og bæta hafnaraðstöðu.

Neita að afhenda Herjólf – vilja aukagreiðslur

Vegagerðin hefur hafnað kröfum skipasmíðastöðvarinnar Crist S.A. sem gerir kröfur um viðbótargreiðslu þvert á alla samninga um lokaskil verksins og aukaverk. Vegagerðin hefur leitað ráðlegginga erlendra sérfræðinga á þessu sviði varðandi viðbrögð.

Myndi aldrei rúma mikið af þorski

Landgrunnið við Ísland er allt að hundrað sinnum stærra en landgrunnið við Jan Mayen. Vistkerfi landgrunnsins við Jan Mayen myndi því aldrei rúma þorsk í neinu magni sem nálgast það sem íslenska landgrunnið ræður við.

Merkingar á þorski hafnar á ný

Nú herma fréttir að íslenskur þorskur sé farinn að veiðast við Jan Mayen. Því er nauðsynlegt að merkingar séu stundaðar reglulega þannig að hægt sé að fylgjast stöðugt með því hvort breytingar verði á fari þorsks við Ísland.

Jafn og góður afli frá áramótum

Síðustu tvö ár þurftum við að fara vestur á Selvogsbanka til að fá þorsk í mars- og aprílmánuði en nú er staðan allt önnur,“ segir Þórhallur Jónsson, skipstjóri.

Mikill vöxtur í fiskeldi

Framleidd voru 19 þúsund tonn í fiskeldi á Íslandi árið 2018 og hefur framleiðslan nær fjórfaldast á síðustu tíu árum. Þar af var framleiðslan í laxeldi um 13,5 þúsund tonn.


TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýtt vinnslukerfi Samherja það fullkomnasta

10. apríl 2018 kl. 12:21

Samningur Samherja og Völku var handsalaður. Frá vinstri: Ágúst Sigurðarson, markaðsstjóri Völku, Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja, Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku og Atli Dagsson, tæknistjóri Samherja.

Verðmæti samninga Samherja og Völku er um 20 milljónir evra eða um 2,5 milljarðar íslenskra króna á gengi dagsins.

Samherji hefur ákveðið að festa kaup á nýjum búnaði frá íslenska hátækni fyrirtækinu Völku. Uppsetning nýrra véla mun gera landvinnslur Samherja þær fullkomnustu sem þekkjast í heiminum en Íslendingar hafa verið leiðandi á heimsvísu þegar kemur að tækniframförum í tengslum við sjávarútveg.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækjunum.

Tækin verða sett upp í vinnsluhúsum félagsins á Akureyri og Dalvík. Hluti af búnaðinum verður settur upp hjá Útgerðarfélagi Akureyringa (ÚA) í sumar og mun Valka svo sjá um stærsta hlutann af vinnslubúnaðinum í nýrri fiskvinnslu Samherja á Dalvík, sem áætlað er að verði tilbúin um mitt ár 2019.

Verðmæti þessara samninga er um 20 milljónir evra eða um 2,5 milljarðar íslenskra króna á gengi dagsins. Um er að ræða kaup á sex nýjum vatnsskurðarvélum, þremur ferskfiskflokkurum, þremur flokkurum fyrir frosna bita og tengdan búnað frá Völku í bæði vinnsluhús félagsins.

Metnaðarfullt verkefni

Samherji hefur verið í forystu sjávarútvegsfyrirtækja þegar kemur að tækniframförum í veiðum, vinnslu og nýtingu afla. Valka hefur unnið markvisst í þróun hugbúnaðar og tækjalausnum fyrir fiskiðnaðinn allt frá stofnun fyrirtækisins árið 2003.

 

„Það hefur verið einstakt að vinna með framsæknum íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum að þróun þessara lausna og ljóst að án slíks samstarfs hefði sá árangur sem náðst hefur ekki verið mögulegur. Valka hefur átt í frábæru samstarfi við Útgerðarfélag Akureyringa á liðnum árum, sem hefur átt stóran þátt í að fleyta vatnsskurðartækninni á þann stað sem hún er í dag. Við hjá Völku erum þakklát fyrir að fá að taka þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem Samherji hefur lagt af stað með. Verkefnið er mjög metnaðarfullt og verða nýju vinnslukerfin vafalítið þau fullkomnustu sem þekkjast í matvælavinnslu í heiminum og þarf enga höfðatölu til að slá slíku fram,“ segir Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku.

Einstakt samstarf

Helgi segir þann árangur sem náðst hefur hér á landi þegar kemur að tækniframförum í vinnslu og veiðum hafa orðið til úr einstöku samstarfi iðnaðar og sjávarútvegs.

„Samstarfið hefur getið af sér fjölda tækninýunga sem hafa vakið athygli víða um heim og skapað íslensku samfélagi ný sóknarfæri. Fyrir okkur hjá Völku er það frábært tækifæri að geta unnið að því að fullþróa tækni okkar og kerfi með einstaklega metnaðarfullu starfsfólki Samherja.“

Í sama streng tekur Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja. „Við erum mjög ánægð með þær lausnir sem Valka hefur verið að bjóða og teljum að í samstarfi við Völku munum við þróa fiskvinnsluna til enn frekari sjálfvirkni á næstu árum. Þessi nýja tækni gerir okkur kleift að þjóna viðskiptavinum okkar enn betur en áður með sérlausnum sem henta hverjum og einum. Við erum að stíga stór skref inn í framtíðina og ætlum okkur að vera leiðandi í heiminum þegar kemur að framleiðslu á hágæða fiskafurðum fyrir kröfuhörðustu viðskiptavinina,“ segir Gestur.

Samherji og Valka hafa átt langt og farsælt samstarf um þróun búnaðar í fiskvinnslu. Meðal annars má nefna að við endurbætur á fiskvinnslu Útgerðarfélags Akureyringa (ÚA) árið 2015 var Valka stærsti einstaki aðilinn sem kom að búnaði í því verki. Meðal annars voru þá sett upp vatnsskurðarvél og ferskfisksflokkari ásamt öðrum búnaði.

„Stefna Samherja er að vinna náið með íslenskum iðnfyrirtækjum að tæknilausnum í sjávarútvegi. Samstarf okkar við Völku er nýjasta birtingarmynd þessarar stefnu Samherja og ég er mjög ánægður með útkomuna,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

„Okkur hefur á liðnum árum tekist að skapa margar lausnir á ýmsum sviðum veiða og vinnslu í samstarfi við framsækin íslensk iðnfyrirtæki og þær lausnir hafa síðan reynst arðbær útflutningsframleiðsla sem hefur verið seld um allan heim,“ segir hann ennfremur.

Nokkrir punktar um ávinninginn af nýrri tækni:

             Með þessari nýju tækni í skurði næst mjög mikill sveigjanleiki og nákvæmni í bitaskurði sem uppfyllir vel kröfur markaðarins.

 

             Aukið hlutfall fer í verðmætustu afurðirnar því skurðarvélin tryggir að hámarksverðmæti fáist fyrir sérhvert flak. Beingarður er um 1-4 prósentustigum minni en í handskurði og markmiðið er að hann verði enn minni í nýrri skurðarvél með tvöfaldri röntgenvél sem mælir hallann á beinunum mjög nákvæmlega og sker samkvæmt því. 

 

             Nýjar tvöfaldar röntgenvélar tryggja enn betur en áður beinlausar afurðir.

 

             Stórbætt hráefnismeðhöndlun þar sem öllum millilagerum er eytt, flök og bitar eru aldrei slegin út af böndum eða látin falla á milli banda og tíminn frá því að vinnsla hefst og þar til afurðirnar eru komnar í lokapakkningar er lágmarkaður.

 

             Gefur möguleika á að þróa nýjar vörur sem ekki var unnt að framleiða með eldri framleiðslutækni.

 

             Notaðar verða gervigreindaraðferðir til aðstoðar við framleiðslustýringuna.