fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þokkalegt nudd í ýsuhólfi norður af Vestfjörðum

24. ágúst 2009 kl. 16:34

,,Þetta er búið að vera þokkalegasta nudd en ekkert meira en það. Við höfum verið að veiðum í ýsuhólfi, sem er út af Straumnesinu og nær austur undir Hornbankann, en þetta hólf var opnað fyrir veiðum fyrir réttri viku síðan. Ætli aflinn jafni sig ekki út með um tonni á togtímann og þetta er hin sæmilegasta ýsa.” Þetta segir Trausti Egilsson, skipstjóri á Örfirisey RE, í samtali á heimasíðu HB Granda. ,,Það hefur verið ótíð á miðunum síðustu fjóra dagana eða svo og stormspá í kortunum. Það virðist því ætla að hausta snemma hér fyrir vestan að þessu sinni,” sagði Trausti.

Nú líður að svokölluðum kvótaáramótum og eftirstöðvar aflaheimilda marga útgerðarfyrirtækja eru í samræmi við það. Trausti segir að vel hafi gengið að treina kvótann enda hafi veiðarnar í úthafinu gengið vel og reyndar sé ekki svo langt síðan að þeim lauk.

,,Maður er hins vegar alltaf skíthræddur um að fá óvart of mikið af þorski. Við skutumst út á Halann í gærkvöldi en þar var allt loðið af þorski þannig að við forðuðum okkur í burtu. Það eru nánast allir svo aðþrengdir hvað varðar þorskkvóta að það er ekki hægt að veiða þorsk nema sem meðafla á öðrum veiðiskap. Það hefur t.d. orðið vart við þó nokkuð af ufsa á Halamiðunum en það er varla á það hættandi að reyna við hann þar sem að menn gætu fengið stór þorskhol,” segir Trausti.

Að sögn Trausta er ekki óalgengt að meðal frystitogari sé með um 900 tonna þorskkvóta. Ef úthaldsdagarnir eru 300 á ári þá jafngildir það því að ekki megi veiða meira af þorski en þrjú tonn að jafnaði á úthaldsdag.