föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Öll verðmætamet slegin

26. ágúst 2009 kl. 12:11

 Ljóst er að aflaverðmæti norska uppsjávarflotans mun slá öll fyrri met á þessu ári. Á sjávarútvegsvefnum IntraFish er því spáð að flotinn fiski fyrir tæplega 6,5 milljarða norskra króna í ár sem jafngildir 137 milljörðum íslenskra króna á núverandi gengi.

Gert er ráð fyrir að á næstu fjórum mánuðum muni aflaverðmætið nema 4,5 milljörðum norskra króna (96 milljörðum ísl. króna) sem er álíka mikið og flotinn fiskaði fyrir á öllu síðasta ári. Risastórir kvótar á norsk-íslenskri síld og makríl ásamt verðhækkunum á öllum uppsjávartegundum gera það að verkum að slegið verður heimsmet í uppsjávarveiðum í ár, eins og IntraFish orðar það.

Það sem vegur þyngst er að makrílkvóti Norðmanna er 70 þúsund tonnum meiri í ár en í fyrra. Lítið hefur verið fiskað af makríl en verðið hefur hækkað um 21% milli ára. Óveidd eru 187.000 tonn af makríl sem áætlað er að skili 2,5 milljörðum norskra króna (53 milljörðum ISK) miðað við óbreytt verð. Það er tvöföldun á aflaverðmæti makrílsins milli ára.

Mikil verðhækkun á uppsjávarfiski

Verð á uppsjávarfiski hefur að meðaltali hækkað um 30%, segir IntraFish. Þar hefur 21% verðhækkun á makríl mest að segja. Hækkun á verði norsk-íslensku síldarinnar er 12% og á kolmunna 40%. Þá hefur orðið 11% hækkun á verði norðursjávarsíldar, 30% hækkun á spærlingi og 50% hækkun á brislingi.

Norðmenn hafa lokið við að veiða um eina milljón tonna af uppsjávarkvótum sínum á þessu ári, þar af tæplega helminginn af norsk-íslenska síldarkvótanum, næstum allan kolmunnakvótann og allan loðnukvótann. Þess má geta að aflaverðmæti loðnunnar var 367 milljónir norskra króna eða jafngildi 7,8 milljarða íslenskra.

Tæplega helmingur af norsku uppsjávarkvótunum, eða 895.000 tonn, er óveiddur en þessi hluti gefur mun meiri verðmæti enn hinn fyrri, einkum vegna makrílsins.