sunnudagur, 24. mars 2019
 

Sextíu prósent smábáta aðstöðulausir

Faxaflóahafnir gerðu skoðanakönnun meðal smábátaeigenda og gefa til kynna vilja til efla smábátaútgerð og bæta hafnaraðstöðu.

Neita að afhenda Herjólf – vilja aukagreiðslur

Vegagerðin hefur hafnað kröfum skipasmíðastöðvarinnar Crist S.A. sem gerir kröfur um viðbótargreiðslu þvert á alla samninga um lokaskil verksins og aukaverk. Vegagerðin hefur leitað ráðlegginga erlendra sérfræðinga á þessu sviði varðandi viðbrögð.

Myndi aldrei rúma mikið af þorski

Landgrunnið við Ísland er allt að hundrað sinnum stærra en landgrunnið við Jan Mayen. Vistkerfi landgrunnsins við Jan Mayen myndi því aldrei rúma þorsk í neinu magni sem nálgast það sem íslenska landgrunnið ræður við.

Merkingar á þorski hafnar á ný

Nú herma fréttir að íslenskur þorskur sé farinn að veiðast við Jan Mayen. Því er nauðsynlegt að merkingar séu stundaðar reglulega þannig að hægt sé að fylgjast stöðugt með því hvort breytingar verði á fari þorsks við Ísland.

Jafn og góður afli frá áramótum

Síðustu tvö ár þurftum við að fara vestur á Selvogsbanka til að fá þorsk í mars- og aprílmánuði en nú er staðan allt önnur,“ segir Þórhallur Jónsson, skipstjóri.

Mikill vöxtur í fiskeldi

Framleidd voru 19 þúsund tonn í fiskeldi á Íslandi árið 2018 og hefur framleiðslan nær fjórfaldast á síðustu tíu árum. Þar af var framleiðslan í laxeldi um 13,5 þúsund tonn.


TölublöðVenjuleg útgáfa

Ólöglegar fiskveiðar tengdar skipulagðri glæpastarfsemi

26. september 2009 kl. 14:31

Stjórnvöld bæði í Noregi og annars staðar verða að átta sig á þeirri staðreynd að ólöglegar fiskveiðar viðgangast vegna þess að vel skipulögð glæpasamtök taka þátt í þeim og sjá um að koma fiskinum á markað.

Svo segir í nýrri skýrslu um ólöglega verslun með fisk úr Barentshafi inn á Asíumarkað, sem unnin var fyrir norska sjávarútvegsráðuneytið. Þar er því haldið fram að ómögulegt sé að koma ólöglega veiddum fiski í gegnum toll og önnur eftirlitskerfi nema fyrir tilstilli alþjóðlegs glæpanets.

Í framhaldi af skýrslunni hefur norska stjórnin ákveðið að koma á fót starfshópi til þess að rannsaka þessi mál.

Skýrsluhöfundur segir að ýmsar leiðir séu notaðar til þess að koma ólöglegum þorski úr Barentshafi inn til Kína. Sem dæmi megi nefna að sama tollnúmerið sé notað fyrir slægðan og hausaðan frystan þorsk og fyrir tegundir eins og alaskaufsa og annan hvítfisk svo sem hokinhala og lýsing. Þá er bent á að ef rússneskum fiski sé endurpakkað í Hollandi fái fiskurinn hollenskt heilbrigðisvottorð og þar með hollenskt upprunavottorð.

Í skýrslunni kemur fram að þau félög sem viðriðin séu ólöglegar veiðar í Barentshafi séu gjarnan skráð í skattaparadísum og þess séu dæmi að norskir ríkisborgarar séu viðriðnir starfsemina.

Því má bæta við að nýlega náðist alþjóðlegt samkomulag um aðgerðir gegn ólöglegum veiðum í heimshöfunum. Samkvæmt því verða gerðar ýmsar ráðstafanir til þess að ganga úr skugga um að fiskur sem ætlunin er að skipa upp í höfnum hafi verið veiddur með löglegum hætti.