miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ólöglegur túnfiskafli fyrir 550 milljarða króna

23. október 2009 kl. 12:07

Verðmæti bláuggatúnfisks, sem veiddur hefur verið ólöglega í Miðjarðarhafi á síðustu tíu árum, er áætlað um 3 milljarðar evra eða jafnvirði 550 milljarða íslenskra króna. Þetta er fjórðungur af heildarverðmæti þessarar túnfisktegundar í heiminum á þessu tímabili.

Þessar upplýsingar koma fram í nýrri skýrslu sem byggir á margvíslegum gögnum frá Evrópu, Bandaríkjunum og Japan um veiðar og sölu á túnfiski.

Vísindamenn hafa lengi varað við mikilli ofveiði á bláuggatúnfiski í Miðjarðarhafi. Atlantshafstúnfiskráðið (ICCAT) sem stjórnar veiðunum hefur brugðist við með því að skerða kvótana á síðustu árum en sú skerðing hefur ekki komið fram í sölutölum fyrir þessa fisktegund, segir í skýrslunni. Þvert á móti hefur bilið milli útgefinna kvóta og raunverulegrar veiði aukist gríðarlega.

Samkvæmt mati ráðgjafanefndar ICCAT nam afli bláuggatúnfisksins 61.000 tonnum árið 2007 sem var tvöfalt meira en útgefinn kvóti og fjórfalt meira en samræmdist sjálfbærri nýtingu. Þá er túnfiskur sem ratar inn á svartan marka ekki meðtalinn.

IntraFish vefurinn skýrir frá þessu.