sunnudagur, 27. maí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Önnur stærsta löndunarhöfn á þorski

19. maí 2017 kl. 13:27

Höfnin á Siglufirði. (MYND/GUÐMUNDUR GAUTI SVEINSSON)

Aðkomubátar landa miklu af fiski á Siglufirði

Á síðasta ári var landað um 22.110 tonnum af þorski á Siglufirði og er Siglufjörður önnur hæsta löndunarhöfnin á þorski þrátt fyrir að lítið sé unnið af þorski á staðnum. Siglufjörður kemur næst á eftir Reykjavík, þar sem 22.163 tonn af þorski komu á land árið 2016, og munar ekki miklu á tveimur efstu höfnunum. Þetta kemur fram í nýjustu Fiskifréttum.

Til að setja þessar tölur í samhengi þá var meira landað af þorski á Siglufirði en í  stórum verstöðvum eins og Vestmannaeyjum og Ólafsvík samanlagt.

Siglufjörður er aðallöndunarhöfnin í Fjallabyggð. Þorskkvótinn í Fjallabyggð er samtals 7.918 tonn, þar af 1.599 tonn á Siglufirði en 6.359 tonn á Ólafsfirði. Hér er ekki talinn þorskkvóti í Barentshafi. Megnið af kvótanum er unnið á frystiskipum.

Mjög mörg aðkomuskip og bátar landa reglulega á Siglufirði hluta úr árinu. Þetta hefur farið vaxandi smám sama undanfarin ár og síðstu þrjú árin hefur sérstaklega mikið af fiski komið þar á land. Megninu af þorski sem kemur ferskur á land er ekið til vinnslu hjá útgerð skipanna fyrir sunnan og vestan en töluverður hluti fer á Fiskmarkað Siglufjarðar.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.