mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þorskurinn á í vök að verjast á mörkuðum

10. desember 2008 kl. 12:02

Þorskurinn hefur vikið fyrir ódýrari fisktegundum á mörkuðunum, svo sem ufsa, alaskaufsa og eldisfiski frá Austurlöndum fjær.

Þannig hefur útflutningur á þorskafurðum frá Noregi dregist saman um 10.000 tonn það sem af er árinu en á móti hefur 12.000 tonnum meira verið flutt út af ufsaafurðum.

Þetta segir markaðssérfræðingur hjá útflutningsnefnd sjávarafurða í Noregi (Eksportutvalget for fisk) sem er opinber stofnun sem vinnur að því að kynna norskar fiskafurðir erlendis og er með skrifstofur í fjölmörgum löndum.

Fram kemur í máli sérfræðingsins í samtali við NTB fréttastofuna að eldisfiskurinn pangasius hafi rutt sér mjög til rúms á mörkuðunum í Evrópu á kostnað dýrari fisktegunda.

Hann nefnir einnig að þegar verð á þorskafurðum í Frakklandi hafi lækkað hafi neyslan aukist á ný sem sýni að markaðsöflin séu virk.

Þrátt fyrir efnahagslægðina er markaður fyrir dýran eldisfisk eins og lax og silung ennþá sterkur, sem stafar af aukinni eftirspurn frá Japan, Tailandi og Hong Kong. Sala á Evrópumarkaði hefur hins vegar dregist saman upp á síðkastið.