mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Orðspori Íslands sem ábyrg fiskveiðiþjóð stefnt í hættu

29. desember 2009 kl. 16:44

„Það hlýtur að vera einsdæmi að þjóð sem á jafnmikið undir nýtingu náttúruauðlinda og við og hefur náð að skapa sér þá ímynd á alþjóða vettvangi að hún stundi sjálfbæra nýtingu fiskistofna, ábyrgar fiskveiðar og varúðarnálgun við stjórn fiskveiða hafi til meðferðar á þjóðþingi sínu frumvarp sem beinlínis miðar að því að ofveiða ákveðinn fiskistofn" segir í umsögn LÍÚ um frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hann hefur lagt fram á Alþingi.

Í umsögninni segir einnig: „Í ákvæði til bráðabirgða I er lagt til að ráðherra fái heimild til að ráðstafa allt að 4000 tonnum af skötusel á tveimur fiskveiðárum, umfram aflamark sem byggir á lögum um stjórn fiskveiða.  Við hvetjum sjávaútvegs- og landbúnaðarnefnd til að vísa þessu ákvæði umsvifalaust til föðurhúsanna."  

Þá segir ennfremur í umsögn LÍÚ: „Framlagning frumvarpsins býður heim hættu á að orðspor okkar sem ábyrg fiskveiðiþjóð bíði varanlegan hnekki með tilheyrandi skaða. Líklegt er að íslenskur skötuselur verði gerður útlægur á mikilvægum mörkuðum. Vert er að benda á að í umsögn fjármálaráðuneytisins er ekki reynt að leggja mat á það tjón sem frumvarpið felur í sér, hvorki á orðspor okkar sem fiskveiðiþjóðar né vegna tapaðs afraksturs af skötuselsstofninum."