sunnudagur, 21. október 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ósáttir við afturköllun MSC-vottunar

12. janúar 2018 kl. 11:00

Grásleppa í neti. MYND/ÞORGEIR BALDURSSON

Axel Helgason, formaður Landsambands smábátaeigenda, segir að útreikningar á meðafla séu byggðir á fáum veiðiferðum, sem ekki séu dæmigerðar fyrir veiðarnar.

„Okkar menn eru í mikilli óvissu um hvaða áhrif þetta hefur á þeirra hag,“ segir Axel Helgason, formaður Landssambands smábátaeigenda, um afturköllun MSC-vottunar vegna grásleppuveiða.

Vottunarstofan Tún tilkynnti um afturköllun vottunarinnar stuttu fyrir áramót og ástæða hennar er sú að meðafli við veiðarnar hafi verið umfram viðmiðunarmörk.

Axel segir hins vegar vinnubrögðin við útreikninga á meðafla engan veginn standast skoðun.

„Vottunin er felld út af þremur tegundum, það er landsel, útsel og teistu. Þeir byggja þetta á tveimur skýrslum, annarri frá Hafró og hinni frá fuglaverndunarsamtökunum Birdlife International. Í báðum þessum skýrslum eru gögnin fengin úr fáum veiðiferðum og þau síðan uppreiknuð yfir á allar veiðiferðir flotans með lítið eða ekkert tillit til staðsetningar, tíma eða dýpis.“

Þannig segir hann að í Birdlife-skýrslunni séu gögn úr 31 veiðidegi uppreiknuð yfir á tæplega 7.000 veiðidaga 240 báta.

„Þessi 31 veiðiferð skilaði 35 fuglum, og 29 af þeim komu í netin í innanverðum Breiðafirði á grunnum sjó, en sex komu fyrir norðan land. Hins vegar er vitað að í djúpu netunum fyrir norðan land er engin teista að koma. Það er engin leið að nota Breiðafjörðinn til að uppreikna á veiðarnar fyrir norðan.“

Hann segist ekki sjá betur en að Hafró noti álíka vafasama aðferð fyrir útreikninga sína á sel í meðafla. En Hafró hefur neitað LS um gögn úr veiðieftirlitsferðum sem notuð eru til að fella vottunina.

„Þótt þeir viti vel að dreifingin á útsel er ekki allt í kringum landið þá uppreikna þeir sínar tölur samt fyrir landið án þess að skipta því í svæði og reikna út frá hlutfalli sela á viðkomandi svæði með tilliti til netafjölda. Við eigum að vera að drepa 2.870 seli af stofni sem telur 4.200 dýr, það hljóta allir að átta sig á að það er ekki heil brú í þessu“

Hann segir að dýpi netanna skipti máli og einnig sé mikilvægt að vita hvenær á veiðivertíðinni þeirra sé vitjað.

„Samkvæmt mínum upplýsingum voru þessar eftirlitsferðir yfirleitt farnar í upphafi vertíðar, sem er mjög bagalegt því flestir selir koma í netin úr fyrstu vitjunum vertíðarinnar á hverju svæði.“

Þá segir Axel smábátasjómenn setta í afar erfiða stöðu gagnvart þeim sem krefjast vottunarinnar.

„Það er talið sjálfsagt að varan eigi að vera vottuð til að komast í búðir. Síðan geta þeir fellt vottunina með ónýtum gögnum og við höfum í raun ekkert um það ferli að segja. Við eigum bara að sjá um að minnka meðaflann og bæta skráningu, en í rauninni er kaupandinn að vottuninni Iceland Sustainable Fisheries, sem kaupir hana fyrir hönd sinna rúmlega 50 hluthafa. Það eru þeir sem fá bréfið frá vottunarstofunni þar sem þeim eru gefnir 90 dagar til þess að koma með aðgerðaráætlun. Við það er óhjákvæmilegt að vera í samvinnu við okkur, þá sem veiða,“ segir Axel.

„Það er mín persónulega skoðun að við ættum að svara þessu þannig að vottunarstofan, Hafró og Birdlife fái 45 daga frest til að endurvekja vottunina. Það yrði hægur vandi með því að endurskoða vinnubrögð kringum þetta ferli og standa þannig undir nafni sem ábyrgir vísinda- og vottunaraðilar.“

gudsteinn@fiskifrettir.is