fimmtudagur, 23. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ósáttir við ágang togskipa

Guðsteinn Bjarnason
20. október 2018 kl. 06:00

Dragnótaveiðar (Mynd: Einar Ásgeirsson)

Smábátasjómenn á Suðurlandi vilja banna dragnótaveiðar innan þriggja sjómílna við suðurströndina

Á fundi Árborgar, félags smábátaeigenda á Suðurlandi, sem haldinn var 18. september síðastliðinn, varð snörp umræða um ágang togskipa við suðurströndina.

„Búið væri að fella úr gildi 3 mílna landhelgi sem verndað hefði uppvöxt og viðgang þessa mikilvæga svæðis,“ segir í frásögn af fundinum á vef Landssambands smábátaeigenda.

„Í umræðunni var vitnað til að veiðar með dragnót svo nærri landi hefði skaðað svæðið og leitt til þess að ýsa hefði ekki veiðst þar í fjölmörg ár.“

Fundurinn samþykkti síðan tillögu um að veiðar með dragnót verði bannaðar innan þriggja sjómílna við suðurströndina.

Samkvæmt upplýsingum frá Erni Pálssyni, framkvæmdastjóra LS, var reglunum breytt í tíð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur á grundvelli tillagna nefndar heildarskoðun á regluverki er varðar notkun veiðarfæra, veiðisvæði og verndunarsvæði á Íslandsmiðum.

„Ef menn eru að harka í einhverjum smáfiski þarna uppi í fjöru þá er það alvarlegt mál,“ sagði sjómaður sem Fiskifréttir ræddu við. Hann tók þó fram að snurvoðabátarnir séu ekkert allir að stunda veiðar mjög nærri landi, „en það er greinilegt að sumir eru að gera það."