fimmtudagur, 23. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Óska eftir undanþágu frá banni í hrygningarstoppi

svavar hávarðsson
9. mars 2019 kl. 12:00

Smábátar við höfnina á Arnarstapa árið 2017. Mynd/Alfons Finnsson

LS bendir á að þorskstofninn hefur braggast mjög síðan að veiðibann var sett

Landssamband smábátaeigenda hefur sent erindi til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis þar sem þess er óskað að handfæraveiðar verði undanskildar veiðibanni í komandi hrygningarstoppi. Þessi beiðni sambandsins er studd þeim meginrökum að bannið sé barn síns tíma enda staða þorskstofnsins allt önnur nú en hún var þegar bannið var tekið upp.

Á heimasíðu LS segir að allt frá upphafi þess að Hafrannsóknastofnun hóf að leggja til við sjávarútvegsráðherra að stöðva veiðar á líklegum hrygningartíma þorsksins, hefur LS óskað eftir að veiðibannið næði ekki til veiða með línu og handfærum.

„Frá því að hrygningarstopp var sett á hafa aðstæður mikið breyst og meginrök fyrir hrygningarstoppinu sem vísað var í 1992 eiga ekki lengur við að mati LS. Rökin voru helst þau að hrygningarstofn var í mikilli lægð og á niðurleið og það vantaði stærri þorsk í stofninn,“ segir í erindi LS. Í talnaefni kemur fram að árið 1992 var hrygningarstofn þorsks talinn vera 154.000 tonn en hann var metinn 652.000 tonn í fyrra. Hlutfall átta ára fisks hefur aukist úr 23,9% í 44,1% á þessum sama tíma. Hrygningarstofninn nú er því margfalt stærri en hann var fyrir rúmum aldarfjórðungi og samsetning veiðistofns hefur gjörbreyst.

Mikil fækkun báta

Eins kemur fram að 240 bátar stunduðu netaveiðar á þorski árið 1992 og veiddu um 23% af aflanum. Sú stærð þorsks sem að mestu kom í netin var sú stærð sem vantaði í hrygningarstofninn.

„Árið 2018 stunduðu um 60 bátar netaveiðar og veiddu 6,9% af þorskaflanum sem að stærstum hluta er veitt frá janúar og að hrygningarstoppi,“ segir þar.

Því telur LS allar forsendur til að afnema hrygningarstopp á handfæri og vísar í frekari rök því til stuðnings.

Frekari rök

Þar á meðal að farsvið smábáta sé takmarkað sem gerir það að verkum að áhrif hrygningarstopps eru mun meiri á smábáta en önnur skip. Þetta á sérstaklega við um þá sem gera út frá höfnum á Reykjanesi, Faxaflóa og Breiðafirði. Eins að það gangi gegn markmiðum um umhverfisáhrif og sjálfbærni að stefna smábátum í að sigla allt að áttfalda vegalengd en þarf til til að komast út fyrir mörk hrygningarstopps til að veiða sama magn og næst rétt utan hafnar í Faxaflóa og Breiðafirði á þessu tímabili.

Þá segir að það tímabil sem þorskur gengur inn í Faxaflóa og gefur sig í auknu mæli á handfæri er stutt eða frá miðjum mars fram í enda maí eða byrjun júní og að þorskur veiddur á línu og handfæri sé að meðaltali smærri en þorskur veiddur í net, dragnót og botnvörpu eins og rannsóknir Hafrannsóknastofnunar sýni.