fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Óstjórn makrílveiða er ósvinna

16. júní 2017 kl. 11:00

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands

Hafráðstefna Sameinuðu þjóðanna í New York

 

Fyrir tveimur árum samþykktu Sameinuðu þjóðirnar sautján markmið um sjálfbæra þróun sem skyldu nást fyrir árið 2030. Eitt þeirra er að, „Vernda og nýta hafið og auðlindir þess á sjálfbæran hátt í því skyni að stuðla að sjálfbærri þróun.”  Þeim fylgja með fjórtán undirmarkmið sem meðal annars kveða á um að fyrir 2025 verði dregið verulega úr hvers kyns mengun og að áhrifum af súrnun sjávar verði haldið í lágmarki.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir að það hafi verið fyrir frumkvæði Fídjí-eyja og Svíþjóðar að boðað til ráðstefnu þar sem einstök ríki gætu lýst eigin markmiðum og metnaði, en jafnframt samþykkt lokayfirlýsingu þar sem frekar er kveðið á um hvernig skuli ná markmiðum um verndun hafsins – í tæka tíð.

Stöndum berskjölduð
„Yfirlýsingin ber vott um samstöðu en hún er ekki bindandi. Enn er til dæmis eftir að ná bindandi samningum um verndun úthafsins. Íslendingar standa berskjaldaðir. Efnahagslögsagan - 200 mílna lögsagan - veitir litla vörn gegn mengun, súrnun eða hlýnun,“ segir Árni sem bætir við að sjávarútvegsráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hafi á ráðstefnunni bent réttilega á að alþjóðleg samvinna sé grundvallaratriði til að takast megi að vernda lífríki hafsins. Í þessum orðum felst skuldbinding um að Ísland standi fremst meðal jafningja, hafi skýra stefnu en sýni sveigjanleika.

„Til að mynda er ósvinna að nokkrar ríkustu þjóðir heims komi sér ekki saman um stjórnun makrílveiða í Norður Atlantshafi – í samræmi við Úthafsvæðisáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ segir Árni sem sótti hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem  haldin var í síðustu viku í New York.

Eitt þúsund áheit
Á ráðstefnunni var fjallað um nefnd heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í málefnum hafsins; mengun heimshafanna, stjórn og verndun strandsvæða, súrnun sjávar, sjálfbærar fiskveiðar, stöðu smáeyríkja, vísindi og tæknilausnir og miðlun þekkingar, og framkvæmd Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þjóðirnar hafa sameinast um ákall um aðgerðir til að bæta ástand heimshafanna, treysta samstarf og efla rannsóknir, vöktun hafsins og miðlun þekkingar og reynslu. Að síðustu höfðu þátttakendur ráðstefnunnar lagt fram hátt í eitt þúsund áheit um aðgerðir, sem snúa að hreinna hafi, minni mengun, verndun lífríkis og sjálfbærum fiskveiðum.

Þrjú ráðuneyti skipuðu sendinefnd Íslands undir forystu Þorgerðar Katrínar. Hún stýrði ásamt fulltrúa Perú málstofu um hafvísindi og tækni í sjávarútvegi, en auk þess átti íslenska sendinefndin sérstakt framlag í málstofu um súrnun hafsins þar sem Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti erindi fyrir Íslands hönd.