föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Óttast ringulreið í fiskinnflutningi til ESB

9. nóvember 2009 kl. 12:00

Yfirvöld í ESB-ríkjunum og talsmenn fisksölufyrirtækja óttast að nýjar reglur þess efnis að veiðivottorð skuli fylgja öllum innfluttum sjávarafurðum til Evrópusambandsins muni valda ringulreið í þessum innflutningi. 

Reglurnar taka gildi um næstu áramót en þeim er ætlað að koma í veg fyrir innflutning sjávarafurða sem eiga uppruna sinn í ólöglegum veiðum inn á markaði Evrópusambandsins. Í Worldfish Report sem birtir upplýsingar um regluverk ESB í sjávarútvegi segir að gætt hafi vaxandi ótta um það að nýju reglurnar muni leiða til mikils óróa í verslun með sjávarafurðir bæði áður og eftir að reglurnar taka gildi.

Á hverjum degi koma fisksendingar í þúsundatali frá öllum heimshornum til ríkja Evrópusambandsins, með bílum, járnbrautalestum, skipum og flugi. Hverri einustu sendingu skal fylgja vottorð um að fiskurinn hafi verið veiddur á löglegan hátt. Þetta gildir einnig um vörur þar sem allt að 30% hráefnisins er fiskur. Þótt lög um þessar reglur hafi verið samþykkt fyrir alllöngu eru aðeins tvær vikur síðan þau voru birt í lagatíðindum ESB. Í mörgum ESB-ríkjum er enn ekki ljóst hvaða stofnanir eigi að framfylgja þessum reglum.

Í lok október áttu fulltrúar sjávarútvegsráðuneytisins, Fiskistofu og Matvælastofnunar fund með framkvæmdastjórn ESB um gerð samkomulags um sérstök skilyrði við framkvæmd reglugerðarinnar með tilliti til útflutnings á íslenskum sjávarafurðum inn á markaðssvæði ESB og innflutnings erlendra afurða til Íslands. Þar er gert ráð fyrir því að fyrir afurðir af íslenskum uppruna geti íslenskir útflytjendur sjálfir fyllt út sérstakt íslenskt veiðivottorð, sem byggir á upplýsingum úr vigtarnótum og verður vistað á vef Fiskistofu. Stefnt er að því að undirrita samkomulagið fyrir lok nóvembermánaðar og í framhaldi af því mun kerfið vera kynnt nákvæmlega, að því er fram kemur á vef sjávarútvegsráðuneytisins.