sunnudagur, 22. júlí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Óttast um stofn villts varafisk

10. september 2017 kl. 12:00

Varafiskur af tegundinni ballan.

Nýttur sem lúsaæta í laxeldi í Skotlandi

Laxeldisstöðvar í Skotlandi eru undir ámæli frá fiskimönnum og umhverfissinnum sem saka þá um að veiða villtan varafisk í sjónum í stórum stíl og sleppa honum í kvíar til að hreinsa lús af eldislaxi.

Umhverfissinnar segja mikið magn af tveimur tegundum varafisks sé veitt úr sjó undan ströndum Englands á hverju ári og að hann sé fluttur lifandi í sjókvíar norðan landamæranna við Skotland. Til að draga úr lús þarf einn varafisk fyrir hverja 25 laxa. Umhverfissinnar segja þetta ógna náttúrulegum viðgangi stofnanna. Stangveiðimenn í Englandi hafa einnig varað við því að sífellt hefur dregið úr veiði á varafisk á stöng.

 

Varafiskur er af ættinni Labridae og eru um 600 tegundir þekktar í heiminum. Mikilvægustu tegundirnar við Englandsstrendur heita ballan og cuckoo.

Vilja draga úr efnanotkun

Skoskir laxeldismenn hafna ásökununum og segja að notkun varafisks til hreinsunar á lús sé hluti af langtímaáætlun sem miði að því að hætta efnanotkun til að drepa lús.

Fiskimenn eru engu að síður uggandi:

„Varafiskur gegnir mikilvægu hlutverki í jafnvægi vistkerfisins. Við einfaldlega höfum ekki þekkingu á því hverjar afleiðingarnar geti orðið af því að veiða svo mikið magn við strandir landsins,“ segir David Mitchell hjá Angling Trust í Englandi.

 

Meira 170.000 tonn af laxi er alinn í Skotlandi á ári í yfir 200 eldisstöðvum. Viðvarandi lúsavandamál hefur fylgt eldinu og fram til þessa hefur verið eitrað fyrir henni með kemískum efnum. Þau geta hins vegar valdið mengun í sjónum.