sunnudagur, 21. október 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Óvissa um kolmunnaveiðar vegna fiskveiðideilu

2. janúar 2018 kl. 15:43

Gullver NS kemur til löndunar á Seyðisfirði. Mynd af vef SVN. Ljósm.: Ómar Bogason.

Uppsjávarskip Síldarvinnslunnar ætluðu til veiða í færeysku lögsögunni í byrjun árs, en bíða nú átekta þar sem ekki hefur samist um gagnkvæmar heimildir til veiða.

Ekki liggur fyrir hvenær uppsjávarskip Síldarvinnslunnar halda til veiða. Gert var ráð fyrir að þau héldu til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni í byrjun ársins en þar sem ekki hefur tekist að semja um gagnkvæmar veiðar í lögsögum Íslands og Færeyja ríkir óvissa um það.

Þetta kemur fram á heimasíðu Síldarvinnslunnar, en skip fyrirtækisins týnast nú til veiða eitt af öðru.

Ísfisktogarinn Gullver NS er fyrsta skipið í Síldarvinnsluflotanum sem hélt til veiða á árinu 2018; lét úr höfn á Seyðisfirði fyrr í dag. Frystitogarinn Blængur NK mun halda til veiða klukkan tíu í fyrramálið en Vestmannaeyjatogararnir Vestmannaey og Bergey munu leysa festar seinni partinn á fimmtudag.

Þá ber að geta þess að loðnuvertíð er á næsta leiti og eru menn þegar farnir að hyggja að henni, segir í fréttinni.