þriðjudagur, 25. september 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Plastmengun skaðar heilann og hljóðmengun truflar torfur

10. október 2017 kl. 06:00

Tvær bláar öragnir úr plasti innan um kísilþörunga í sýni sem tekið var úr hafinu við Hong Kong, skoðað í smásjá. MYND/EPA

Tvær nýjar rannsóknir staðfesta að umsvif mannfólksins raska lífsháttum og lífsmöguleikum fisksins í hafinu.

„Okkar rannsókn er sú fyrsta sem sýnir að plastagnir í örstærðum geta safnast upp í heila fiska,“ segir Tommy Cedervall, efnafræðingur við Háskólann í Lundi í Svíþjóð.

Rannsóknin sýnir að örplastið berst í fiskinn einkum úr svifdýrum sem fiskurinn nærist á, en það eru svifdýrin sem éta örsmáu plastagnirnar. Stundum kemst örplastið síðan inn í blóðrás fisksins og þaðan beint inn í heilavefinn, þar sem það hleðst upp og hefur áhrif á hegðun fiskanna.

Fiskar með plast í heilanum innbyrða minni fæðu og eru ekki jafn iðnir við að kanna umhverfið, að því er niðurstöður rannsóknarinnar benda til.

Rannsóknin sýnir einnig að það eru fyrst og fremst örsmáu plastagnirnar sem hafa áhrif á lífríkið. Stærri plastagnir hafa síður áhrif.

Í frásögn Lundarháskóla af rannsókninni segir að Cedervall treysti sér ekki til að fullyrða neitt um það hvort örplastið geti borist í aðra hluta fisksins en heilann, og þar með komist inn í mannslíkama þegar fiskur er snæddur. Engar rannsóknir hafi verið gerðar á því, svo hann viti.

Þá hefur verið gerð rannsókn á áhrifum hljóðmengunar á atferli torfufiska, sem sýnir að skipaferðir, mannvirkjagerð og aðrar framkvæmdir fólks raski hegðun fiska í torfum.

Hljóðin af alls kyns brölti mannanna berast hraðar í vatni en lofti. Fiskar í torfum treysta mjög á torfuna til að lifa af, meðal annars til að forðast árásir ránfiska. Hljóðmengun sem raskar samhæfingu torfunnar og innbyrðis boðskiptum stofna fiskunum í hættu.

„Þetta er ein af fáum rannsóknum þar sem kannað er hvernig mengun af iðju mannfólks hefur áhrif á torfuhegðun fiska,“ segir Christos Ioannou við háskólann í Bristol á Englandi. „Fyrri vinna hefur einkum beint athyglinni að lífeðlisfræði og hegðun einstakra dýra.“

gudsteinn@frettabladid.is