þriðjudagur, 21. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Prófuðu að súta grásleppuroð

Guðsteinn Bjarnason
28. apríl 2019 kl. 07:00

Sútað leður úr grásleppuroði. Mynd/Gunnsteinn Björnsson

Atlantic Leather á Sauðárkróki er einungis eitt tveggja fyrirtækja í heiminum sem nýtir fiskroð til leðurgerðar. Hitt er í Belgíu.

Gunnsteinn Björnsson, eigandi leðurgerðarinnar Atlantic Leather á Sauðárkróki, segir þróunarvinnu enn vera einn af lykilþáttum starfseminnar. Fyrirtækið framleiðir leður úr fiskroði, mest úr þorsk- og laxaroði, en gerðar hafa verið tilraunir með ýmsar fisktegundir, meðal annars lúðu og ufsa.

„Nú nýlega prófuðum við meira að segja að gera leður úr grásleppuroði. Bara svona af forvitni,“ sagði Gunnsteinn á ráðstefnunni Fish Waste for Profit, sem haldin var á Grand Hótel í Reykjavík 10. og 11. apríl.

Sú tilraun virðist ætla að heppnast nokkuð vel, en endanlegar niðurstöður eru þó ekki komnar. Hann segist meðal annars eiga eftir að prófa hvort hægt sé að lita grásleppuleðrið, en gerir ráð fyrir því að það gangi.

„En þetta sútast,“ sagði Gunnsteinn þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans. „Það er náttúrlega skrápur á þessu og hann fer ekki, og ég á nú ekki von á að þetta verði mjög mjúkt. En það er ýmislegt notað sem er öðru vísi líka. Maður veit aldrei.“

Gunnsteinn segir grásleppuroð ekki gert úr trefjum af því tagi sem við eigum að venjast í roði af laxi, eða þorski, ýsu og öðrum hvítfiskum.

„Þetta er bara hvelja á fiskinum, ekki þetta hefðbundna skinn eins og við erum vön. Þannig að maður vissi ekki hvað myndi gerast, hvort þetta myndi bara leysast upp eða hvað. En það gerðist ekki.“

Strangar prófanir
Nú síðast hefur fyrirtækið fengið óskir frá bílaframleiðendum um leður og verið er að kanna hvort það gangi. Til leðurs sem notað er í áklæði í bílum eru gerðar afar strangar gæðakröfur.

Áður en hægt er að selja leður til þeirra þarf að gera prófanir sem fara þannig fram, að fyrst er leðrið látið liggja í 120 stiga hita í 18 klukkustundir. Síðan er það látið bíða í tvær stundir en að því búnu sett í 20 stiga frost í fjóra tíma.

„Þetta er gert átján sinnum og að hámarki má leðrið hlaupa um þrjú prósent,“ sagði Gunnsteinn. „Þannig að þetta er sú tæknilega áskorun sem við stöndum frammi fyrir núna. Við erum að vinna í þessu og sífellt að færast nær markinu.“

Innan tíðar geta menn því kannski farið að sjá fiskleður frá Atlantic Leather í bifreiðum.

Annars segir Gunnsteinn fiskaleðrið njóta vaxandi vinsælda víða um heim. Það er meðal annars notað í tískuvörur af ýmsu tagi, föt og töskur, veski og skó, svo fátt eitt sé nefnt.

Gunnsteinn segir Atlantic Leather vera annað tveggja fyrirtækja í heiminum sem býr til leður úr fiskroði. Hitt er í Belgíu. Reynslan sýni að vanda þurfi til verka og gefa sér tíma til að þróa réttar aðferðir.

„Allar sútunaraðferðir í heiminum hafa verið þróaðar til að virka við 37 til 38 gráðu hita. Ef við setjum fisk út í slíkt þá fær maður bara fiskisúpu, og það gerist mjög hratt. Við gerðum mikið af fiskisúpu fyrstu árin.“