fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ráðgjafaverkefni á sviði fiskimála erlendis kynnt

5. febrúar 2018 kl. 15:18

AÐSEND MYND

Rætt um mögulega aðkomu íslenskra aðila í samstarfi þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins og Alþjóðabankans

Utanríkisráðuneytið boðar til kynningarfundar og samtals um ráðgjafaverkefni á sviði fiskimála í samstarfi við Alþjóðabankann þriðjudaginn 13. febrúar næstkomandi. Á fundinum verður fyrirhugaður stuðningur við fiskiverkefni Alþjóðabankans og möguleg aðkoma íslenskra aðila kynnt. Fundurinn hefst kl. 9 á Rauðarárstíg 25.

Í frétt frá utanríkisráðuneytinu segir að 
í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands hafi um árabil verið lögð áhersla á stuðning við fiskimál og uppbyggingu í fiskimannasamfélögum. Á sviði fjölþjóðlegrar samvinnu hafi Ísland lagt ríka áherslu á fiskimál innan Alþjóðbankans og komið m.a. að stofnun styrktarsjóðs um fiskimál árið 2005, PROFISH, sem m.a. hefur að markmiði að auka fjármögnun til verkefna á þessu sviði. Þá hefur Ísland jafnframt kostað stöðu sérfræðings á sviði fiskimála hjá Alþjóðabankanum, fyrst 2009-2010 hjá PROFISH, og síðar í Ghana þar sem íslenskur sérfræðingur hóf störf við fiskiverkefni bankans í Vestur Afríku sl. sumar.

Alþjóðabankinn er nú með allmörg fiskiverkefni í undirbúningi og framkvæmd víða um heim. Oft er þörf fyrir sérhæfða þekkingu í afmarkaðri ráðgjöf í tengslum við framkvæmd þeirra og því hefur sú hugmynd verið rædd við bankann að Ísland gæti aðstoðað við framkvæmd þessara verkefna með því að leggja til tæknilega aðstoð við tiltekna afmarkaða þætti. Reiknað er með að stór hluti verkefna tengist smábátaútgerð og vinnslu í fiskisamfélögum.
Þau svið sem sérstaklega hafa verið nefnd í þessu sambandi eru m.a.:

· Fiskveiðistjórnun og eftirlit
· Vinnsla og gæðamál
· Jafnréttismál í virðiskeðju fiskveiða
· Stefnumótun og regluverk
· Öryggismál
· Fiskeldi og innviðir

Fyrirhugað er að verkefnin verði unnin samkvæmt skilgreindum beiðnum og verklýsingum frá verkefnisteymum Alþjóðabankans eða sem hluta af sameiginlegum verkefnum bankans og Íslands. Ráðuneytið mun halda utan um skrá áhugasamra ráðgjafa og fyrirtækja og fjármagna ráðgjafavinnuna. Umfang og eðli þessa samstarfs mun því markast af eftirspurn verkefnateyma bankans eftir tiltekinni sérfræðiþekkingu. Miðað er við að verkin yrðu unnin samkvæmt ráðgjafatöxtum Alþjóðabankans og bankinn eða viðskiptavinir hans hafi umsjón með framkvæmd ráðgjafavinnunar í hverju verkefni. Markmið fundarins er kynna þessar hugmyndir frekar og kanna áhuga íslenskra aðila á slíku samstarfi og hugmyndum þeirra um framkvæmd þess og mögulega aðkomu.

DAGSKRÁ
9:00 Morgunverður
9:10 Samstarf ráðuneytisins við Alþjóðabankann á sviði fiskimála, Þórarinna Söebech, deildarstjóri fjölþjóðlegrar þróunarsamvinnu, þróunarsamvinnuskrifstofa utanríkisráðuneytisins
9:20 Kynning á fiskiverkefnum Alþjóðabankans og þörf bankans fyrir sérhæfða ráðgjöf, Xavier Vincent, Lead Fisheries Specialist & Global Lead Fisheries and the Blue Economy hjá Alþjóðabankanum.

10:00 Mögulegar útfærslur á samstarfi við íslenska aðila, umræður. Davíð Bjarnason, deildarstjóri svæðasamstarfs og atvinnulífs, þróunarsamvinnuskrifstofa utanríkisráðuneytisins. 10:15 Umræður og fyrirspurnir. 10:30 Fundarlok.

 

Nauðsynlegt er að skrá þátttöku hjá Lilju Jónsdóttur (liljaj@mfa.is) eigi síðar en föstudaginn 9. febrúar.