mánudagur, 25. júní 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ráðherra svarar dragnótamönnum

28. mars 2011 kl. 13:14

Dragnótaveiðar (Mynd: Einar Ásgeirsson)

Vísar í norska skýrslu máli sínu til stuðnings.

Samtök dragnótamanna hafa átt í bréfaskriftum við Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra vegna þeirrar ákvörðunar ráðherrans að loka flóum og fjörðum á norðanverðu landinu fyrir dragnót.

Í nýjasta svari ráðherrans segir m.a. að dragnótin sé orðin mjög kröftugt veiðarfæri og fari yfir stórt svæði í hverju kasti. ,,Þekkt er að veiði í einum firði er oft aðeins góð í stuttan tíma í senn og síðan þarf fjörðurinn hvíld svo aftur megi fá veiði t.d. viku síðar. Það eru einmitt þessi miklu afköst eða tímabundna uppþurrkun sem hefur m.a. fengið menn til að staldra við,” segir ráðherrann.

Jón Bjarnason vísar máli sínum til stuðnings í norska skýrslu þar sem fram komi að erfitt geti reynst að stunda sjálfbærar veiðar með dragnót á staðbundnum stofnum á grunnslóð og að línuveiðar fari oft illa saman við dragnótaveiðar á sama svæði.

Á vef Samtaka dragnótamanna, þar sem bréf sjávarútvegsráðherra er birt,  er vakin athygli á því að ráðherrann kjósi frekar að nota álit norsks starfshóps hagsmunaaðila um áhrif dragnótaveiða á staðbundinn fiskistofn (kysttorsk) við Noreg en að byggja á niðurstöðum vísindarannsókna Hafrannsóknastofnunarinnar.

Vefur Samtaka dragnótamanna