sunnudagur, 21. október 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rætt var um að leggja niður höfnina í Breiðdalsvík

1. janúar 2018 kl. 15:00

Breiðdalsvík. MYND/HAG

Páll Baldursson séð tímana tvenna í sinni heimabyggð


Páll Baldursson sagnfræðingur hefur séð tímana tvenna í sinni heimabyggð á Austfjörðum. Hann er fæddur og uppalinn á Breiðdalsvík og var sveitarstjóri Breiðdalshrepps frá 2006 og út árið 2014 en starfar nú sem fyrirtækjafulltrúi hjá Arion banka á Egilsstöðum. Hann segir að alltaf hafi verið sveiflur í sjávarútvegi í þessum landshluta, líka fyrir tilkomu kvótakerfisins. En kvótakerfið hafi þótt leitt til langvarandi breytinga á stöðum þar sem áður var blómlegur sjávarútvegur.


gugu@fiskifrettir.is

„Á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði voru eitt sinn tveir togarar á hvorum stað og nokkur þúsund tonna kvóti. Andey fór frá Breiðdalsvík í byrjun tíunda áratugarins en Hafnarey var dálítið lengur á staðnum. Sama gerðist á Stöðvarfirði. Þaðan fóru Kambaröstin og Álftafell. Þar til viðbótar lögðust niður störf 50-60 manna í frystihúsum og öll þau afleiddu störf sem því fylgja,“ segir Páll.

Sá tími hafi runnið í garð að sjávarútvegur og fiskvinnsla lagðist nánast alveg af. Á árunum 2005 til 2010 barst varla afli á land í Breiðdalsvík. Þetta var fyrir tíma strandveiðanna. Árið 2009 var landaður afli á Breiðdalsvík einungis 70 tonn á fiskveiðiárinu.

Samstarf við Hornfirðinga

Heimamenn háðu mikla varnarbaráttu. Tillaga hafði komið fram frá nefnd skipaðri af sjávarútvegsráðherra að nokkrar hafnir á landinu yrðu lagðar niður vegna rekstrarvanda, þar á meðal í Breiðdalsvík. Höfnin stóð sannarlega ekki undir sér og var baggi á sveitarsjóði. Það voru því blikur á lofti á þessum fámenna stað. En menn lögðu ekki árar í bát.

„Okkur tókst að fá nokkra hornfirska útgerðarmenn til samstarfs um landanir í Breiðdalsvík. Fiskveiðiárið 2010/2011 var landað 770 tonnum eða rúmlega tífalt meira magni en fiskveiðiárið á undan. Magnið jókst með hverju fiskveiðiári og var komið upp í 2.000 tonn 2012/2013. Með Hornfirðingunum spurðist það út að það væri gott að landa á Breiðdalsvík því þar væri þjónusta og aðstaða. Þess vegna bættust við í hópinn bátar frá Stykkishólmi, Húsavík og víðar. Það tókst því að snúa vörn í sókn. Landaður afli var meira segja orðinn meiri að mestu með aðkomubátum en hann var þegar togarinn Hafnarey var enn í Breiðdalsvík,“ segir Páll.

Ferðaþjónusta og sjávarútvegur

Á staðnum byggðist upp aðgerðaþjónusta þótt megnið af fiskinum hafi verið unninn annars staðar. Djúpavogur, Breiðdalsvík og Stöðvarfjörður liggja mjög vel fyrir hornfirska báta á ákveðnum tíma árs, sérstaklega á haustin og veturna. Þaðan er stutt á miðin og góð hafnaraðstaða. Hornfirðingarnir höfðu í fyrstu athugað hug sveitarstjórnarinnar til endurbóta á höfninni. Úr varð að flotbryggjan var stækkuð og það greiddi líka götu annarra að koma til Breiðdalsvíkur.

Páll segir að þessi þróun hafi átt sér stað fyrr á Stöðvarfirði og er nú er orðin hefð þar fyrir löndunum og útgerð jafnt heimabáta og aðkomubáta. Mun meiri afli berist þar á land en á árum áður en að sama skapi er megnið af aflanum unnið annars staðar.

Ferðaþjónustan hefur orðið æ ríkari þáttur í atvinnulífinu jafnt á Breiðdalsvík sem Stöðvarfirði. Þar vinna þessar tvær greinar saman því sjávarútvegurinn, löndun á fiski og bátar á sjó, hafa mikið aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn.

„Fyrstu ár strandveiðanna skiptu sveitarsjóðinn sem slíkan ekki miklu fjárhagslegu máli en umsvifin sjálf, mannlífið og aðdráttaraflið fyrir ferðaþjónustuna skipti miklu máli.“

Páll segir mikla þróun hafa orðið í sjávarútvegi á Austfjörðum undanfarin ár. Stóru fyrirtækin, Ísfélagið á Þórshöfn, HB Grandi á Vopnafirði, Eskja á Eskifirði, Síldarvinnslan í Neskaupsstað og Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði, hafi verið í mikilli uppbyggingu. Þetta séu það miklar fjárfestingar að ekki sé útlit fyrir annað en bjart framhald hjá þessum fyrirtækjum.

„Á Suðurfjörðunum eru minni útgerðir og forvitnilegt verður að sjá hvernig fiskeldið til að mynda í Berufirði eigi eftir að þróast. Þar eru uppi mikil áform og fiskeldið hefur án nokkurs vafa hjálpað Djúpavogi mjög mikið eftir að Vísir hætti þar vinnslu,“ segir Páll.