mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ráðherra leyfir takmarkaðar loðnuveiðar í rannsóknaskyni

9. febrúar 2009 kl. 16:40

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hefur ákveðið að heimila takmarkaðar loðnuveiðar íslenskra skipa í rannsóknaskyni.  Í reglugerð er kveðið á um að leyft verði að veiða 15.000 tonn í þessu skyni og að stjórn og skipulag veiðanna skuli vera á hendi Hafrannsóknastofnunarinnar. Fram hefur komið að útgerðarmenn og skipstjórar loðnuskipanna eru vongóðir um að með því náist að finna nægjanlegt magn af loðnu þannig að unnt verði að gefa út aflamark í loðnu.

Frá þessu er greint í frétt frá ráðuneytinu. Þar segir einnig:

Óljóst er, eins og sakir standa, að nægjanlegt magn loðnu finnist. Ekki þarf hins vegar að fjölyrða um þá miklu hagsmuni sem í húfi eru fyrir þjóðarbúið í heild, útgerðirnar, sveitafélögin og þá miklu atvinnusköpun sem veiðar og vinnsla loðnu skapar til sjós og lands. Því verður að gera allt sem í mannlegu valdi stendur til þess að ganga úr skugga um hvort nú sé fyrir hendi loðna á Íslandsmiðum í veiðanlegu magni það er umfram þau 400 þúsund tonn sem veiðiregla kveður á um.

Þrátt fyrir umfangsmikla leit rannsóknarskipa sem og veiðiskipa hefur því miður ekki enn tekist að mæla nægjanlegt magn af loðnu til að unnt hafi verið að hefja veiðar á þessari vertíð. 

Samkvæmt aflareglu sem lengi hefur verið notuð í loðnu er miðað við að skilja eftir a.m.k. 400 þúsund tonn til hrygningar ár hvert. Í nóvember og desember sl. mældi Árni Friðriksson um 270 þúsund tonn af tveggja og þriggja ára loðnu (nú þriggja og fjögurra ára) út af norðvestanverðu landinu.  Í byrjun árs sendu útgerðirnar loðnuskip með Árna til leitar og mælinga og voru skipin búin samskonar tækjabúnaði og rannsóknaskipið þannig að unnt var að nýta þau gögn sem þau söfnuðu til mælinga. Um 214 þúsund tonn af þriggja og fjögurra ára loðnu mældust í þessari atrennu, aðallega út af norðausturlandinu.  Árni Friðriksson er nú um það bil að ljúka fjórðu atrennu að mælingu sem því miður gefur ekki nægjanlega góðar vonir, en í þriðju atrennunni á norður leiðinni yfir aðal göngusvæðið. Alls hafa nú mælst um 385.000 tonn.