sunnudagur, 16. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rammi tapaði hundruðum milljóna á rækjunni

12. nóvember 2009 kl. 14:25

,,Frá árinu 2000 til ársins 2007 nam framlegðartap Ramma af rækjuiðnaði hundruðum milljóna króna,” sagði Ólafur H. Marteinsson framkvæmdastjóri Ramma hf. í erindi um þróun úthafsrækjuveiðanna á aðalfundi LÍÚ.

,,Það er öllum ljóst núna að áfram var haldið alltof lengi. En það var búið að binda í þessum rekstri mikið fé, allur kvótinn keyptur, skip voru keypt og öðrum breytt og fjöldi fólks vann í greininni á sjó og í landi sem í fljótu bragði hafði ekki að öðru að hverfa. Það var því auðvelt, þótt það væri kannski ekki raunsætt, að láta undan voninni um betri tíð með blóm í haga,” sagði Ólafur.

,,Nú eru að skapast skilyrði í rækjunni til þess að fyrirtækin geti aftur farið að nýta fjárfestingu í kvóta, skipum, verksmiðjum og þekkingu sem spannar allan ferilinn frá veiðum til neytanda,” sagði Ólafur og lýsti furðu sinni á því að þá bærust fréttir af því að sjávarútvegsráðherra hefði skipað starfshóp til þess m.a. að skoða fýsileika þess að heimila frjálsar veiðar með einhverskonar sóknarstýringu.

,,Er markmiðið að stuðla að því að rækjuiðnaðurinn verði arðbær og samkeppnisfær á alþjóðamarkaði og skapi trygga vinnu til sjós og lands? Tæplega hjálpar sóknarmark þar til. Kerfi sem felur í sér kapphlaup og sóun og er ekki til þess fallið að stuðla að hagkvæmni og stöðugleika,” sagði Ólafur H. Marteinsson.

Nánar segir frá erindi Ólafs í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.