þriðjudagur, 22. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rauðlaxinn sleppur með skrekkinn

13. febrúar 2018 kl. 11:00

Scott Pruitt, yfirmaður Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna. MYND/EPA

Umhverfisstofnun Bandaríkjanna hefur óvænt snúið við ákvörðun sinni frá því snemma á síðasta ári, þegar hún gaf – með alveg jafn óvæntum hætti – grænt ljós á afar umdeild áform um námuvinnslu við Bristolflóa í Alaska.

Rauðlaxaveiðar hafa undanfarna hálfa öld verið í öðru sæti yfir arðsömustu veiðar Bandaríkjanna. Áformin um námuvinnslu á þessum slóðum hefðu stefnt þessum veiðum í hættu.

Fyrirtækið Northern Dynasty Minerals hafði ætlað að fara þar út í stórtækar framkvæmdir við að ná gulli, kopar og öðrum verðmætum málmum úr jörðu. Gallinn var sá að við Bristolflóa eru mikilvægustu uppeldissvæði rauðlaxins í Vesturheimi, en óttast var að námuvinnslan myndi valda óafturkræfum skaða á því svæði.

Það var Scott Pruitt, yfirmaður stofnunarinnar, sem kynnti fyrri ákvörðunina, um að leyfa námuframkvæmdarnir. Það gerði hann aðeins nokkrum vikum eftir að Donald Trump, þá nýlega tekinn við sem forseti Bandaríkjanna, gerði hann að yfirmanni Umhverfisstofnunarinnar

Græna ljósið gaf hann þvert á niðurstöður vísindamanna stofnunarinnar, sem höfðu eindregið lagst gegn því að leyfa þessar námuframkvæmdir.

Eftir að hafa hlustað betur á eigin ráðgjafa komst hann í lok janúar að þeirri niðurstöðu að „allar námuframkvæmdir á svæðinu stefni líklega þeim auðugu náttúruauðlindum sem þarna eru í hættu.“

Framkvæmdir verði því ekki leyfðar nema að undangengnum ítarlegum rannsóknum.