mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rauðsprettan víkur fyrir pangasíus

10. nóvember 2009 kl. 12:27

Víetnamski eldisfiskurinn pangasíus virðist í síauknum mæli ryðja sér til rúms í Evrópulöndum á kostnað dýrari hvítfisktegunda úr Norður-Atlantshafi. Frá Danmörku berast þær fréttir að fiskimenn í Hirtshals óttist að rauðsprettan muni verða undir í verðsamkeppninni við þennan ódýra fisk frá Asíu

Danskir neytendur velja pangasíus í auknum mæli þegar þeir kaupa í matinn. Danska neytendablaðið Tænk upplýsir að verð á rauðsprettu hafi lækkað um 30% á einu ári. Verðið hafi stundum fallið niður fyrir lágmarksverð Evrópusambandsins en það þýði að þá fari rauðsprettan í minkafóður.

Talsmenn stórverslananna Coop og Dansk Supermarked staðfesta að mikil söluaukning hafi orðið í pangasíus á sama tíma og dregið hafi úr sölu á rauðsprettu. Haft er eftir upplýsingafulltrúa Coop að frá árinu 2007 hafi verslunarkeðjan selt um 50% meira af pangasíus en áður, en á sama tíma hafi sala á rauðsprettu minnkað um 40%. Ástæðan fyrir þessari þróun sé sú að asíski eldisfiskurinn sé mjög ódýr.

Hins vegar benda samtök danska fiskiðnaðarins á að pangasius innihaldi ekki omega-3 sýrur eins og hvítfiskurinn úr hafinu og sé því ekki eins hollur.