fimmtudagur, 23. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rekjanleikinn í skýjunum

Guðsteinn Bjarnason
16. febrúar 2019 kl. 07:00

Stefán P. Jones hjá Skynjar Technologies hefur aðstöðu í Sjávarklasanum eins og fjölmargir aðrir frumkvöðlar í sjávarútvegi. MYND/HAG

Stefán P. Jones hjá Skynjar Technologies nýtir tæknina til að segja sögu fisksins allt frá því hann er veiddur upp úr sjó þangað til hann kemur til neytandans í verslun eða á veitingahúsi. Hann segir bálkakeðjuna öruggari en heimabankann.

„Þetta snýst allt um söguna,“ segir Stefán P. Jones, og bætir því við að traustur rekjanleiki vörunnar frá veiðum til neytanda sé undirstaða sögunar sem við viljum segja. Íslendingar hafa góða sögu að segja og þeir geti notfært sér tæknina til að votta að þeir séu að segja satt.

Eitt það nýjasta í þeim efnum er bálkakeðjan, blockchain, sem margir þekkja kannski helst í tengslum við Bitcoin-rafmyntina en nýtist ekki síður við að tryggja öryggi upplýsinga á vefnum.

En hvað er þetta fyrirbæri eiginlega, bálkakeðjan sem á að geta tryggt rekjanleika sjávarfangs?

Öruggara en heimabankinn
„Hvað skal segja? Bálkakeðjan er kerfi sem tekur á móti skráningum,“ segir Stefán þegar hann er beðinn um að útskýra þetta fyrirbæri.

„Þær eru síðan dulkóðaðar og þeim er skipt upp í marga bita. Þær eru síðan hýstar í dreifðu kerfi og dulkóðunin kemur í veg fyrir að menn geti nálgast upplýsingarnar.“

Upplýsingunum sem skráðar eru í kerfið er sumsé skipt upp í einingar sem síðan eru hýstar á netinu, í skýinu eins og það er nefnt. Öryggið er tryggt með því að einingarnar eru dulkóðaðar, sem hindrar að hver sem er geti átt við þær að vild.

„Svo eru ákveðnir lyklar sem notaðir eru til að tengja einingarnar saman aftur. Þegar talað er um þetta sem keðju þá er bara verið að tala um að gögnin eru einingar í keðju. Þessi tækni er í raun öruggari en tæknin sem liggur á bak við öryggið í heimabankanum þínum,“ segir Stefán, sannfærður um að í sjávarútvegi muni menn taka þessari tækni opnum örmum. Hún tryggi rafræna skráningu rekjanleika vörunnar allt frá veiðum til kaupanda.

Innri og ytri rekjanleiki
Stefán segir „innri rekjanleika“ hér á Íslandi vera mjög góður, allt frá því fiskurinn er veiddur og þangað til hann er seldur úr landi. Megnið af öllum fiski sem við veiðum er hins vegar seldur til útlanda, og þar sleppir innri rekjanleikanum.

„Okkar innri rekjanleiki er sá besti í heiminum. Ytri rekjanleikinn er hins vegar með ýmsar brotalamir. Rekjanleikavandamál eru meiri á öðrum stöðum og sums staðar mjög mikil.“

Þegar fiskurinn er sendur úr landi hafa Íslendingar sleppt tökum á vörunni. Til þess að tryggja að íslenskt sjávarfang komist til skila alla leið þarf að vera hægt að rekja för hennar frá hverjum áfanga til þess næsta.

Staður og tími
„Hjá framleiðandanum lýkur vinnsluferlinu þegar fisknum er pakkað, lokið er sett á og svo er settur á kassann miði með stöðluðum upplýsingum. Á þennan miða er settur annað hvort QR-kóði eða bara strikamerki. Þetta tákn er síðan hægt að lesa með snjallsíma eða einhverju tæki sem er tengt við netið. Næst tekur flutningsaðili við pakkanum, hann les miðann og síðan koll af kolli. Hver og einn er með sitt tæki sem er skráð á þann aðila, þannig að í hvert sinn sem upplýsingarnar eru lesnar inn þá hlaðast inn í kerfið tíma- og staðsetningarstimplar. Það er grunnstoð ytri rekjanleikans, að varan hafi verið á ákveðnum stað á ákveðnum tíma,“ segir Stefán.

„Allt er þetta rafrænt og vistað inn á sameiginlegt kerfi, þannig að þegar varan er komin á leiðarenda getur kaupandinn lesið kóðann. Hann sér strax að pakkinn var hjá framleiðanda á mánudegi, er svo á þriðjudegi kominn til Evrópu í Boulogne sur mer til dæmis, og nú er ég staddur í búðinni fimm dögum seinna að kaupa þennan fisk. Eða ég er heildsali að kaupa tíu bretti og þetta er sagan á bak við vöruna. Ég veit þá hvaðan sendingin kemur, nákvæmlega.“

Rekjanleikinn er sagan
„Þetta er nefnilega þannig að sagan og rekjanleikinn eru systkyni. Við viljum að þetta sé rekjanlegt og við viljum hlusta á söguna,“ segir Stefán.

Til þess að geta rekið söguna er samt ekki nóg að skrá gögnin inn í skýjakerfið. Hin hliðin er tæknibúnaðurinn sem les á miðann, og tæknibúnaðurinn sem kemur nauðsynlegum upplýsingum inn í kerfið.

Skynjar Technologies var stofnað af Stefáni árið 2016 og hefur verið betur þekkt sem SeafoodIQ. Sprotafyrirtækið sem slíkt hefur þróað bæði hugbúnað sem skráir og les rekjanleikagögnin, ásamt því að hanna nýja kynslóð merkinga sem settar eru á vöruna.

„Upphafið að fyrirtækinu er í þessu tækifæri sem ég sá í prentuðum rafrásum.“

Rafrásirnar eru prentaðar á þunna filmu sem síðan er felld inn í bakhlið hefðbundinna merkimiða.

Skynjarar á miðunum
Þar að auki er hægt að prenta rafræna skynjara á miðana sem t.d. mæla hitastig vörunnar. Það kemur sér sérstaklega vel í sjávarútvegi og öðrum matvælaiðnaði, þar sem hitastig vörunnar í hverjum áfanga flutningsins getur ráðið úrslitum um gæði hennar þegar á leiðarenda er komið.

Þetta virkar því þannig að á hverjum áfangastað vörunnar eru lesnar inn í kerfið upplýsingar um ekki aðeins stað og tíma heldur einnig hitastig vörunnar og fleiri þætti. Allar þessar upplýsingar má kalla fram hvenær sem þörf krefur, það er hvenær sem staðfesta þarf þá gæðasögu sem seljandinn hverju sinni býður kaupandanum upp á.

„Framtíðin er sú að verksmiðjur munu geta hent reiður á öllu sem þær gera. Þetta verður bara eins og myndavélakerfi, það verða tæknilegir hlutir sem votta að þú sért að segja satt.“

Sérstaða Íslands
Hann leggur áherslu á að sérstaða Íslands verði fólgin í rekjanleikanum.

„Íslensk framleiðsla mun seint geta keppt við norska eða rússneska framleiðslu í magni. Sérstaða Íslands á frekar að koma fram í bakgrunni vörunnar, sannanlegum gæðum sem byggja á rekjanlegri keðju samsettri af traustum merkjum. Við trúum því að okkar lausn muni gefa sjávarútveginum einstakt tækifæri til að greina sig frá samkeppninni með rafrænum rekjanleika ásamt frásögn sem varpar ljósi á sjálfbærni, hreinleika og vörumerkið Ísland,“ segir Stefán.

Aðstæður hér á landi hafa verið töluvert ólíkar því sem kaupendur okkar í öðrum löndum hafa átt að venjast víðast hvar.

„Við hér á Íslandi vitum vel að fiskurinn sem við kaupum kemur úr næsta firði. Það eru svo fáir sem búa hérna. Við eigum flest einhvern frænda sem er annað hvort skipstjóri eða háseti á bát. Á alheimsmarkaði er komin ný kynslóð sem vill fá meira gagnsæi. Það er búið að lesa og heyra fréttir af óheiðarleika innan matvælageirans. Það hefur verið að kaupa og borða fisk og svo allt einu kemur það upp að fiskurinn sem það var að borða er í útrýmingarhættu. Það er ekki góð tilhugsun, sérstaklega ekki fyrir fólk í Bandaríkjunum. Þar er slóðin svo löng og flókin. Meira en 90 prósent af fiski sem neytt er í Bandaríkjunum er fluttur inn. Þannig er það ekki hér á landi.“

Fór ungur á sjóinn
Sjálfur þekkir Stefán vel til í sjávarútvegi. Hann fór snemma á sjóinn, ungur strákur með pabba sínum við Breiðafjörð. Réði sig síðan á frystitogara og starfaði þar í rúman áratug. Stofnaði síðan eigin fiskvinnslufyrirtæki og rak um tíma útflutningsfyrirtæki, en söðlaði síðan um fyrir þremur árum þegar hann hélt á vit tæknigeirans.

„Þegar ég var að byrja mína vegferð í þessu, að tala um rekjanleika, var fólk ekki alveg að átta sig á þessu. Meira að segja á alheimsvísu var rekjanleiki bara eitthvað svona sem væri næs að hafa. Það er varla fyrr en eftir 2017 eða svo, á mjög stuttum tíma í rauninni, sem þessir hlutir taka að breytast og menn fara að horfa á sjálfbærnina. Stórfyrirtækin eru farin að gera það, og neytendamarkaðurinn er líka farinn að kalla eftir þessu. Ég veit ekki hvort kom á undan, hænan eða eggið, en það er greinilega mikil vitundarvakning í gangi.“

Landbúnaðurinn með
Um þessar mundir er fyrirtæki hans að víkka út kvíarnar, að því leyti að tæknin mun einnig standa til boða í landbúnaði.

„Við höfum alltaf hugsað þetta kerfi þannig að unnið verði náið með opinberum stofnunum, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun og ráðuneytinu. Menn hafa verið að sammælast í því að þetta sé næsta skrefið til að auka virði íslenskra sjávarafurða. Við ætlum að búa til heildstætt kerfi fyrir allt Ísland og þá sáum við líka tækifæri í því að taka landbúnaðinn inn. Alla sem framleiða matvörur hér á landi, hvort sem það eru egg, mjólkurvörur, grænmeti, kjötvörur, salt, fiskur eða hvað.“

Skynjar Technologies er í óða önn að þróa tæknina undir vörumerkinu Tracio og leggur mikla áherslu á að fá sem flesta að borðinu.

„Í byrjun júní verður haldin vinnustofa um rafræna slóð matvæla þar sem iðnaðurinn kemur allur saman. Þar förum við í gegnum stefnumál og þær tæknilegu ákvarðanir sem þarf að taka. Fyrsta útgáfan verður svo sannprófuð í samstarfi við Deplar Farms í Skagafirði. Í framhaldi af því verður þetta svo þróað áfram í samvinnu við notendur.“

Kvót:

 

Þetta er nefnilega þannig að sagan og rekjanleikinn eru systkyni. Við viljum að þetta sé rekjanlegt og við viljum hlusta á söguna

 

Allt er þetta rafrænt og vistað inn á sameiginlegt kerfi, þannig að þegar varan er komin á leiðarenda getur kaupandinn lesið kóðann.

 

Við ætlum að búa til heildstætt kerfi fyrir allt Ísland og þá sáum við líka tækifæri í því að taka landbúnaðinn inn