mánudagur, 18. febrúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Reksturinn ekki alltaf dans á rósum

19. júlí 2016 kl. 13:56

Freysteinn Bjarnason framan við fiskimjölsverksmiðjuna í Neskaupstað. Ljósm: Hákon Ernuson

Freysteinn Bjarnason kveður Síldarvinnsluna eftir áratuga starf.

Freysteinn Bjarnason hefur látið af störfum hjá Síldarvinnslunni eftir þrjátíu ár. Í viðtali á vef fyrirtækisins rifjar hann m.a. upp að Síldarvinnslan hafi ekki alltaf verið það stönduga og öfluga fyrirtæki sem hún er í dag. 

„Þegar ég kom austur má segja að Síldarvinnslan hafi tæknilega séð verið gjaldþrota fyrirtæki. Á fyrstu árum mínum í verksmiðjunni varð ég svo sannarlega var við veika stöðu fyrirtækisins. Ég man að þegar ég var að byrja reyndi ég til dæmis að semja um afslætti á vörum og varahlutum sem þurfti að kaupa til verksmiðjunnar. Þá fékk ég venjulega að heyra að afsláttur kæmi ekki til greina og spurning væri hvort viðskipti við fyrirtækið ættu að eiga sér stað. En það var fyrir einstakan dugnað manna eins og Finnboga [Jónssonar] sem tókst að snúa þessu við. Fyrirtækið var eflt stig af stigi og afkoma þess fór sífellt batnandi.

Á þessum tíma var sjávarútvegurinn í hinum mestu kröggum og mörg fyrirtæki áttu við svipaða erfiðleika að stríða og Síldarvinnslan. Í umræðu nútímans gleymist það gjarnan að rekstur sjávarútvegsfyrirtækja hefur ekki alltaf verið dans á rósum,“ segir Freysteinn og bætir við: "Þau tíu ár sem ég hef setið í stjórn Síldarvinnslunnar hafa í reynd verið stórkostleg upplifun. Að fá að taka þátt í ótrúlegri uppbyggingu fyrirtækisins og sjá það verða eitt af stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins hafa verið hreinustu forréttindi." 

Sjá viðtalið í heild HÉR.