sunnudagur, 9. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rekur hótel og farþegabátinn Sögu ÍS

30. desember 2017 kl. 07:00

Friðrik Árnason, eigandi Hótels Bláfells á Breiðdalsvík.

Haftengd ferðaþjónusta á Breiðdalsvík


Friðrik Árnason hefur í mörgu að snúast. Hann er fæddur og uppalinn í Njarðvík, býr í Vogum á Vatnsleysuströnd en á og rekur Hótel Bláfell og farþegabátinn Sögu ÍS á Breiðdalsvík. Hótelið og báturinn styðja hvort annað því þótt það sé aðallega gegnumstraumur erlendra ferðamanna sem nýtir sér bátsferðirnar þá er veitingastaður hótelsins gjarnan heimsóttur í framhaldinu og sjávarfang sem menn hafa fengið á stöng matreitt.

gugu@fiskifrettir.is

Friðrik keypti bátinn sumarið 2014 frá Seyðisfirði. Þetta er 15 brúttólesta eikarbátur smíðaður á Fáskrúðsfirði 1979.

„Þetta er skemmtilegur bátur með mikla sál. Við höfum talsvert þurft að nostra við hann og því verkefni er ekki lokið. Það er með eikarbátana að þeir bjóða eiginlega endalaust upp á verkefni og auðvelt að sleppa sér og enda í tugmilljóna króna endurbótum,“ segir Friðrik.

Báturinn hefur verið gerður út frá miðjum maí og út september. Þá er honum lagt við bryggju og er því úr rekstri í sjö og hálfan mánuð. Þetta kemur þó ekki til af góðu. Friðrik segir erfitt að eiga við þar til bær yfirvöld um leyfi til þess að gera bátinn út að vetrarlagi. Ástæðan er sú að ekki er rými fyrir farþega inni í bátnum.

„Það virðist ekki vera hægt að gefa út ársleyfi fyrir bátinn og treysta útgerðinni til þess að fara ekki út í öllum veðrum. Okkar rúntur er korters stím út á víkina og þar erum við í um tvo tíma við fuglaskoðun og sjóstangsveiði. Við erum aldrei lengra frá landi en sem tekur 15 mínútna siglingu. Og þótt það geri fullkomnar stillur í janúar eða febrúar megum við ekki sigla.“

Lundi, selur og sjóstöng

Hann segir þetta bagalegt því mikil eftirspurn er eftir þessari dægradvöl allt árið á Breiðdalsvík. Við þessu verði þó ekki brugðist með öðrum hætti en að breyta bátnum að innan og gera þar rými fyrir 12-15 manns. Nú er leyfi fyrir 18 farþega á dekkinu að sumarlagi.

Nokkrar litlar eyjur eru í Breiðdalsvíkinni og þar heldur til lundi sem erlendir ferðamenn hafa mikinn áhuga á. Einnig er skoðaður landselur og úthafsselur og svo er rennt fyrir fisk með sjóstöng.

„Það er mjög vinsælt og það er eiginlega magnað að sjá upplitið á gestum þegar þeir fá vænan þorsk á stöngina. Aflinn er síðan matreiddur á hótelinu og snæddur þar.“

Þetta er ný dægradvöl fyrir ferðamenn á þessu svæði og segir Friðrik nauðsynlegt að geta boðið upp á afþreyingu á stað eins og Breiðdalsvík. Ferðamenn leggi ekki leið sína þangað eingöngu vegna þess að þar er hótel. Þeir þurfi að geta haft eitthvað fyrir stafni líka.

Þeir sem sækja mest í ferðirnar eru Mið-Evrópubúar og Bandaríkjamenn en Asíubúar mun síður. Friðrik segir Þjóðverja sérstaklega áhugasama um sjóstangveiðina.

Þarf að vera sýnilegt

Útgerð Sögu styður við verslunina á staðnum, kaffihúsið og hótelið. Síðastliðið sumar voru farþegarnir um 500 talsins sem Friðrik segir í raun of lítið fyrir reksturinn. Áform hafi verið uppi að farþegar væru um 1.000 talsins á ári en það taki tíma að byggja starfsemi af þessu tagi upp.

„Þetta þarf að vera sýnilegt hjá ferðaskrifstofunum og vera inni í pökkunum þeirra. Það er boðið upp á svipaðar ferðir á Fáskrúðsfirði en þar er einungis farið með hópa og þeir eru ekki með fastar brottfarir eins og við. Við förum tvisvar til þrisvar á dag og það er alltaf farið óháð fjölda farþega.“

Friðrik segir hafnarskilyrði góð í Breiðdalsvík en lítið fé hafi verið afgangs hjá hreppnum til þess að laga sjálfa bryggjuna. Áður fyrr var þarna gerður út togari og línubátar en undanfarin ár hafa litlir fiskibátar lagt þar upp. Þá er talsverður erill við bryggjuna og aðstæðurnar fremur bágbornar.

„Fyrir um það bil átta árum var um það rætt að leggja ætti af nokkrar hafnir á landinu, þar á meðal á Blönduós, Skagaströnd og Breiðdalsvík. Arnar Ragnarsson, skipstjóri frá Hornafirði, tók það upp hjá sér að bjarga höfninni á Breiðdalsvík. Hann fór að leggja upp hérna með bátana Ragnar og Guðmund og í kjölfarið komu Benni, Háey, Lágey og Bíldsey. Það varð því ekki úr að höfnin yrði lögð af.“

Friðrik telur framtíð í haftengdri ferðaþjónustu á Breiðdalsvík en það taki tíma að byggja upp starfsemina. Þetta sé einfalt í framkvæmd og taki ekki nema korter að sigla. Þarna sé alltaf fisk að hafa. Þegar þetta spyrjist betur út eigi eftirspurnin eftir að aukast. Hann segir talsvert um að sama fólk komi ár eftir ár til landsins.

„Ég hitti um daginn Svisslending sem hafði komið 37 sumur í röð til Íslands.“