mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rífandi eftirspurn eftir omega-3

30. nóvember 2009 kl. 12:51

Eftirspurn eftir vörum sem innihalda omega-3 fitusýrur heldur áfram að aukast hröðum skrefum enda líður varla sá dagur að ekki birtist nýjar skýrslur um varnaráhrif þeirra gegn margvíslegum sjúkdómum.

Heimsmarkaðurinn fyrir vörur sem omega-3 fitusýrum er bætt í er metinn á 1,2 milljarða dollara eða jafnvirði 146 milljarða íslenskra króna, samkvæmt nýrri skýrslu sem alþjóðlega markaðsrannsóknafyrirtækið Frost & Sullivan hefur gert.

Áætlaður árlegur vöxtur á þessum markaði er 10-13% á næstu árum. Omega-3 fitusýrurnar koma fyrir í margvíslegu formi og styrkleika. Þeim er bætt í matvæli, drykki, ungbarnamat og fæðubótaefni, svo eitthvað sé nefnt.

Áætlað er að neysla á omega-3 fitusýrum sem unnar eru úr fiski eða þörungum hafi numið 72.000 tonnum á síðasta ári í heiminum öllum, þar af 27.000 tonnum í Norður-Ameríku, 21.000 tonnum í Asíu og öðrum Kyrrahafslöndum og 13.000 tonnum í ESB-ríkjum og tæp 6.000 tonnum annars staðar. Talið er að neyslan hafi aukist að meðaltali um 30-40% árlega á undanförnum árum.

Sjávarútvegsvefurinn fis.com skýrir frá þessu.