fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rækjuskip Reyktal komin í Barentshafið

18. júní 2009 kl. 12:00

eftir að hafa gefist upp á veiðum á Flæmingjagrunni

,,Við vorum með þrjú skip á rækjuveiðum á Flæmingjagrunni frá því í byrjun ársins og fram í apríl en gáfumst þá upp vegna slakrar veiði og fluttum okkur norður í Barentshaf,” sagði Yngvi Óttarsson hjá Reyktal í samtali við Fiskifréttir en skip útgerðarinnar eru skráð í Eistlandi og veiða á eistneskum sóknardögum bæði á Flæmingjagrunni og í Barentshafi.

Að sögn Yngva var fín veiði í Barentshafinu til að byrja með, upp í 20 tonna afli á sólarhring, en hefur síðan minnkað niður í 5-10 tonn. Veiðin fer aðallega fram á Svalbarðasvæðinu og er rækjan ýmist fryst til pillunar síðar eða fullunnin um borð. Auk skipa Reyktal eru 5-7 norsk rækjuskip á slóðinni og 2-3 færeysk, en þar með er flotinn upptalinn.

Yngvi sagði að verðið á iðnaðarrækjunni hefði farið hækkandi upp á síðkastið, gagnstætt því sem yfirleitt gerðist á þessum árstíma, og verið 12 norskar krónur kílóið á uppboði í fyrradag. Hækkunin stafaði væntanlega af hráefnisskorti því fá skip væru að veiðum. Aðeins eitt skip er nú á rækjuveiðum á Flæmingjagrunni en það er Ottó sem íslenskir aðilar koma að útgerð á.