föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Röng fisktegund í fjórðu hverri máltíð

14. nóvember 2009 kl. 14:32

Það færist sífellt í vöxt að neytendur séu blekktir í fiskkaupum með þeim hætti að ódýr fisktegund sé sögð vera dýrari tegund. Þetta á einkum við um ódýran eldisfisk eins og tilapia og pangasius sem seldur er sem þorskur, ýsa eða annar hvítfiskur af dýrari gerðinni. 

Nýlega voru kynntar niðurstöður úr viðamikilli könnun sem gerð var í mörgum fylkjum Kanada með aðstoð framhaldsskólanema á viðkomandi stöðum. Safnað var fisksýnum úr verslunum, fiskmörkuðum og veitingahúsum og reynt að fara á staði þar sem dýrari fiskur var til sölu.

Alls voru greind með DNA mælingu 500 sýni úr fiski sem merktur var með nafni dýrrar fisktegundar. Í ljós að fjórðungur sýnanna reyndist vera svikin vara, það er að segja önnur, ódýrari tegund en merkt var í fiskborði búðarinnar eða á matseðli veitingahússins.

Tegundir eins og eldisfiskurinn tilapia og eldislax úr Atlantshafi voru merktar sem hvítur túnfiskur, ,,red snapper” eða villtur kyrrahafslax. Fiskur merktur sem lúða frá Alaska reyndist vera lúða úr Atlantshafi sem víða er álitin ofveidd.

Þessi könnun sýndi svipaða niðurstöðu og hliðstæð könnun sem gerð var á veitingahúsum og fiskmörkuðunum í Toronto og New York. Þar var svikin vara einnig í 25% tilvika. Talið er að fisktegundirnar skipti aðallega um nafn á framleiðslu- og dreifingarstigi vörunnar en ekki við löndun fisksins eða í smásölunni.

Fréttavefurinn Fis.com skýrir frá þessu.