mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rússar kaupa tífalt meira af sjávarafurðum frá Noregi en Íslandi

5. maí 2009 kl. 12:00

Norskar sjávarafurðir hafa algjöra sérstöðu þegar kemur að fiskinnflutningi Rússa. Alls fluttu Rússar inn 338.000 tonn af sjávarafurðum frá Noregi á síðasta ári sem var 29% af öllum innflutningi þeirra á fiski.

Um 72% af þessu magni voru afurðir af uppsjávarfiski og 26% voru laxaafurðir.

Þótt hlutdeild Norðmanna væri mikil í fyrra dróst hún saman um 4% frá árinu á undan. Á sama tíma juku Víetnamar innflutning sinn úr 5% af heildinni í 10% og nam hann 120.000 tonnum. Í þriðja sæti var Kína með 102.000 tonn eða 9%.

Fjórða, fimmta og sjötta landið í þessari röð voru Máritanía, Danmörk og Bretland með 4% hlut hvert og síðan komu Chile, Ísland og Kanada með 3% hvert ríki.

Þessar tölur kynntu Rússar á sjávarútvegssýningunni í Brüssel í síðustu viku, að því er segir á vef Intrafish.