mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rússar veiddu 3,6 milljónir tonna árið 2009

20. janúar 2010 kl. 15:00

-- nýttu aðeins helming loðnukvótans vegna söluerfiðleika

Rússnesk skip lönduðu alls 3,6 milljónum tonna af fiski og öðru sjávarfangi árið 2009 sem er um 390 þúsund tonna meiri afli en árið á undan.

Rússnesk skip veiddu um 90% af útgefnum heildarkvóta á árinu. Skip á norðursvæðinu veiddu meira en 600 þúsund tonn, þ.e. í NA-Atlantshafi og í Barentshafi. Af heildaraflanum var meira en 70% landað í rússneskum höfnum.

Að loðnu og ískóð undanskildum nýttu rússneskar útgerðir kvóta sinn því sem næst að fullu. Loðnukvótinn var 150 þúsund tonn og veiddist aðeins helmingur af honum. Veiðar á atlantshafsþorski fóru fram í samræmi við kvóta.

Söluerfiðleikar eru aðalástæðan fyrir því að kvótar í loðnu og ískóði voru ekki fullnýttir. Sem dæmi má nefna að enn eru um 5 þúsund tonn af loðnu óseld í frystigeymslum í Murmansk frá síðustu vertíð. Loðnuveiðar rússneskra skipa í ár mega hefjast nú í lok janúar.

Heimild: IntraFish