fimmtudagur, 23. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sækja sjó úr hafinu

Guðsteinn Bjarnason
5. ágúst 2018 kl. 07:00

Páll Valgeirsson tekur sjósýni um borð í Árna Friðrikssyni. MYND/HAFRÓ

Erfðasýni má nota til að rannsaka fleira en glæpi. Íslenskir vísindamenn eru teknir að safna umhverfiserfðasýnum úr hafinu umhverfis landið.

Hinn árlegi uppsjávarleiðangur Árna Friðrikssonar í fyrsta sinn nýttur til að greina lífríkissamsetningu með nýrri aðferð. Um þetta má lesa á bloggsíðu leiðangursins, sem nú er nýlokið.

„Við vitum öll hvernig erfðasýni af vettvangi glæps eru notuð til að sanna sekt þess sem glæpinn framdi,“ skrifar blogghöfundur Árna Friðrikssonar. „Allar lífverur losa sífellt húðfrumur og hár í umhverfið. Því er hægt að nota erfðasýni til að rannsaka fleira en glæpi eins og útbreiðslu og magn lífvera.“

Ekki er langt síðan vísindamenn tóku fyrst upp á því að greina erfðaefni í vatni eða sjó til að rannsaka útbreiðslu lífvera. Blogghöfundur skýrir frá því að fyrir um áratug hafi menn prófað að sía vatn úr tjörnum í Frakklandi til að mæla útbreiðslu froska. Nokkrum árum síðar tóku menn sýni á grunnsævi við Elsinore í Danmörku þar sem umhverfiserfðaefni var notað til að greina fimmtán fiskitegundir og fjórar fuglategundir.

„Síðan þá hefur verið hröð þróun í notun umhverfiserfðaefnis við rannsóknir á lífríkinu í sjónum.“

Umhverfiserfðaefni hefur meðal annars verið notað til að rannsaka árstíðarbundna göngur fiska í Hudsonánni í New York, rannsaka tegundasamsetningu fiska á landgrunnsbrúninni suðvestur af Grænlandi, til að greina lífríkissamsetningu í þaraskógum í Monterey flóa í Bandaríkjunum og til að meta stofnstærð hákarlastofna í suðvestur Kyrrahafi.

Sýnum safnað á mismunandi dýpi
„Við erum að safna umhverfiserfðaefni í fyrsta skipti í þessum leiðangri,“ segir á bloggsíðu uppsjávarleiðangurs Árna Friðrikssonar. „Sýnum er safnað fyrir tilraunaverkefni þar sem greina á tegundasamsetningu uppsjávarlífríkis í hafinu umhverfis Ísland.“

Fram kemur að sýnum verði safnað á 26 stöðvum. Á hverri stöð eru síaðir samtals lítrar af sjó sem sóttir eru mismunandi djúpt: enn lítri er tekin við yfirborð sjávar, einn á 20 metra dýpi, einn á 50 metra, einn á 200 metra og sá síðasti á 500 metra dýpi.

Verkefninu er stjórnar Christophe Pampoulie, erfðafræðingur á Hafrannsóknastofnun.

„Við bíðum spennt eftir að sjá niðurstöðurnar,“ segir blogghöfundur.

Uppsjávarleiðangur Árna Friðrikssonar er partur af fjölþjóðlegum rannsóknarleiðangri á uppsjávarlífríki Norðaustur-Atlantshafs. Haldið hefur verið í slíkan leiðangur árlega undanfarin ár, en auk Íslands taka þátt í honum skip frá Noregi, Færeyjum og Grænlandi.

„Markmið leiðangursins er að rannsaka alla hlekkina í uppsjávarvistkerfinu frá frumframleiðni sjávar til hvala,“ segir á vefsíðu leiðangursins.

Skipunum er siglt eftir fyrirfram ákveðnum leiðarlínum og sýnum safnað á fyrirfram ákveðnum stöðvum. Aðalverkefnið er að safna upplýsingum um uppsjávartegundirnar þrjár, makríl, síld og kolmunna. Aukaverkefnin eru nokkur og þau eru ekki síður mikilvæg.

Loðnulirfum safnað
Eitt þeirra er að safna loðnulirfum með svonefndum MIK-háf sem er tveir metrar í þvermál. Fæðuslóðir loðnunnar eru í norðurhöfum nálægt Grænlandi en til hrygningar hefur hún gengið suður til Íslands. Lengst af hefur hún einkum hrygnt við suðurströndina en undanfarið hefur hrygningin aukist meðfram norðurströndinni. Leiðangursmenn hafa safnað lirfusýnum og meta fjölda loðnulirfa til þess að kanna þessar breytingar.

Þá hafa leiðangursmenn veitt hrognkelsi til að merkja þau áður en þeim er sleppt aftur. Það er gert til þess að afla margvíslegra upplýsinga, meðal annars um það hvert hrognkelsi í miðju Norður-Atlantshafi ganga til hrygningar, hvort þau fara heldur til Íslands eða að Noregsströndum.

„Úfrá upplýsingunum sem við höfum aflað í þessum leiðangri vitum við að hrognkelsin eru dreifð á öllu hafsvæðinu sem farið er yfir í túrnum, frá ströndum Norður-Noregs, að Íslandi og allt suður með austurströnd Grænlands,“ segir á bloggsíðunni. „Hins vegar vitum við ekki hversu lengi þau dveljast á úthafinu né heldur hve hratt þau vaxa.“

„Á leiðarlínum er bergmálstækni notuð til að mæla endurvarp frá kolmunna og síld, hvalir eru skráðir, síritar mæla hitastig og frumframleiðni í yfirborði sjávar, og ljósmagn við yfirborð. Á stöðvum þá er mikið um að vera þar sem við söfnum dýrasvifi, fiskilirfum og fiskiseiðum, togum í yfirborði til að meta magn makríls, mælum hitastig og seltu frá yfirborði niður á 500m dýpi, og söfnum vatnssýnum fyrir mælingar á blaðgrænu og næringarefnum.“

Árni Friðriksson lagði úr höfn í Reykjavík síðdegis mánudaginn 2. júlí og komið var til hafnar nú rétt fyrir verslunarmannahelgi, mánuði síðar.