miðvikudagur, 18. júlí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Safnkosturinn kominn yfir 10.000 gripi

4. ágúst 2017 kl. 16:00

Í bátasafni Síldarminjasafnsins eru varðveittir 12 bátar. Mynd/Fiann Paul

Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði hefur vaxið og dafnað í tæplega þrjá áratugi

Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði byggir á sögu síldveiða Íslendinga en þar spilaði Siglufjörður stórt hlutverk. Síldveiðar hófust á staðnum árið 1903 og næstu sextíu og fimm ár snerist allt um síldina. Um miðja öldina var Siglufjörður fimmti stærsti kaupstaður landsins og íbúafjöldinn rúmlega 3.000. Yfir sumartímann margfaldaðist fólksfjöldinn og allt að tíu þúsund manns sóttu atvinnu til Siglufjarðar.

„Allt byggðist á síldinni. Fólk fékk greitt í beinhörðum peningum og fór oftar en ekki heim með fulla vasa fjár í vertíðarlok. Síldin gaf þjóðinni allt að 44% útflutningsteknanna þegar best lét – svo þýðingarmikill var iðnaðurinn þjóðarbúinu öllu. Sagt hefur verið að ráðamenn þjóðarinnar hafi gjarnan hringt í verkstjóra Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði – í þeim tilgangi að fá upplýsingar um stöðuna á veiðum og vinnslu hverju sinni, því það var sá einstaki þáttur sem hafði mest um stöðu þjóðarbúsins að segja á þeim tíma,“ segir Anita Elefsen, safnstjóri Síldarminjasafnsins.

Síldin hvarf
Eins og flestir vita hvarf síldin eftir rúmlegra hálfrar aldar ævintýri. Síldarævintýrið mikla á sjó og landi hafði runnið sitt skeið og eftir sátu Siglfirðingar, sem og aðrir Íslendingar, með sárt ennið. Hvarf síldarinnar kippti fótunum undan stærsta atvinnuvegi þjóðarinnar.

„Saga þessa mikla ævintýris er varðveitt á Síldarminjasafninu, sem er meðal stærstu safna landsins. Í þremur húsum kynnast gestir sögu síldveiða og vinnslu á silfri hafsins. Róaldsbrakki er norskt síldarhús frá 1907. Þar er flest eins og var á árum síldarævintýrisins þegar síldarfólkið bjó þar. Í Gránu er safn um sögu bræðsluiðnaðarins sem löngum var kallaður fyrsta stóriðja Íslendinga. Í Bátahúsinu er að finna tólf báta, stóra og smáa. Þar er hafnarstemningin frá því um 1950 endursköpuð,“ segir Anita og bætir við að uppbygging safnsins hafi verið ævintýri líkust.

Hugsjónir og hugrekki
Anita segir að hugsjónir og hugrekki þeirra sem að uppbyggingunni stóðu hafi skipt sköpum og séu í raun grundvöllur alls þess sem á eftir kom. Upphafið megi rekja aftur til hóps sjálfboðaliða, sem einsettu sér að bjarga Róaldsbrakkanum og opna þar safn.

„Nú, að tæplega 30 árum liðnum hefur safnið sannarlega vaxið og dafnað og sannað gildi sitt og tilgang. Sem dæmi má nefna að árið 2000 hlaut Síldarminjasafnið íslensku safnaverðlaunin, fyrst íslenskra safna. Jafnframt hlaut safnið Evrópuverðlaun safna árið 2004, þegar það var valið besta, nýja iðnaðarsafn Evrópu,“ segir Anita.

Hvalstöð Rússakeisara
Sýningar safnsins, ásýnd þess og umfang taka sífelldum breytingum. Uppbyggingin stendur enn, og undanfarin þrjú ár hefur verið unnið að endurreisn Salthússins; húss sem er talið eiga uppruna sinn í hvalstöð í eigu Rússakeisara við Hvítahafsströnd Rússlands á nítjándu eða jafnvel átjándu öld, að sögn Anitu.

„Húsið var tekið ofan og það selt til Íslands, það var endurreist í nýrri hvalstöð í Tálknafirði árið 1893 og enn tekið ofan og flutt til Akureyrar árið 1943 þar sem það var notað fyrir gærusöltun á vegum KEA,“ segir Anita en fullklárað mun húsið þjóna ólíkum tilgangi. Fyrst og fremst sem varðveisluhús safnsins. Sett verður upp ný sýning á efri hæðinni um veturinn í síldarbænum, til viðbótar við lítið kaffihús og safnverslun í suðurenda neðri hæðar hússins.

10.000 gripir
Safnkostur Síldarminjasafnsins telur yfir tíu þúsund gripi af öllum stærðum og gerðum. Sífellt berast ný aðföng í safnkostinn sem er afar umfangsmikill. Fyrir skemmstu barst safninu bátur þegar bræðurnir Bjarni og Jónas Sigurjónssynir afhentu bátinn Kríu í minningu afa síns, Jónasar Jónssonar Long frá Ólafsfirði. Nú eru alls varðveittir tólf bátar í Bátahúsinu og Krían sá langelsti.

„Hún er hin glæsilegasta og hefur verið líkt við bát í þjóðbúningi – en hún var gerð upp á áttunda áratug síðustu aldar og hefur ekki verið siglt síðan. Krían var smíðuð í Lofoten í Noregi skömmu fyrir aldamótin 1900 – hún kom til Íslands með norskum selföngurum um aldamótin og varð eftir í Grímsey. Jónas Jónsson Long keypti Kríuna árið 1927 og hefur hún alla tíð síðan verið í vörslu fjölskyldunnar. Til gamans má geta að í bátnum er gangfær Sóló vél frá árinu 1897,“ segir Anita með áherslu.

Gamall og hnoðaður
Verkefnin á Síldarminjasafninu eru fjölbreytt og mörg hver allrar athygli verð. Undanfarið hefur verið unnið að því að gera gamlan hnoðaðan olíutank að sýningar- og tónleikarými.

„Tankurinn var kominn á niðurrifsstig, hátt á níræðisaldri, en þykir svo vönduð smíði og á svo sérstæða sögu að ástæða þótti til að flytja hann til varðveislu á Síldarminjasafninu. Á stríðsárunum var hann málaður sem íbúðarhús til að villa um fyrir þýskum óvinaflugvélum í yfirvofandi loftárásum. Meðal gamalla málningarlaga á tanknum leynast merki um dyr og glugga þar sem mannvera stendur við uppvask eða er að vökva blómin sín,“ segir Anita.

Undanfarin misseri hefur verið unnið að því að gera tankinn manngengan – útbúnar voru dyr og botninn soðinn aftur í, en nauðsynlegt reyndist að skera botninn úr fyrir flutning til þess að létta byrðina, en tankurinn er rúm 22 tonn. Áætlað er að útbúa tankinn sem bæði sýningarrými og til fjölbreyttra uppákoma eins og tónleika, fyrirlestra, gjörninga og fleira, segir Anita að endingu.