föstudagur, 26. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sala til Nígeríu farin vel af stað

Guðjón Guðmundsson
5. nóvember 2018 kl. 07:00

Mynd/Víkingur Þórir

Skreiðarframleiðslan farin að standa undir sér eftir mikið tap

Nokkuð hefur ræst úr málum íslenskra skreiðarframleiðenda að undanförnu eftir nokkur rýr ár. Engar birgðir eru lengur í landinu og allt selst og er sent úr landi jafnóðum og það er framleitt. Verð hafa hækkað en þó ekki náð sömu hæðum og þegar þau voru hve hæst. Þessi þróun helst í hendur við hækkandi olíuverð en eini markaðurinn fyrir íslenska skreið er olíuríkið Nígería.

Efnahagsþrengingar í Nígeríu hafa gert það að verkum að kaupmáttur þar í landi hefur dregist mikið saman. Stjórnvöld settu á gjaldseyrishöft upp úr miðju ári 2015. Samhliða því lækkaði verð á þurrkuðum fiskafurðum um allt að 50% þegar það var lægst eða frá áramótum 2015/2016 og fram eftir ári. Þessu fylgdi mikil birgðasöfnun hjá framleiðendum á ákveðnum tímapunktum. Sala á þessum birgðum hafi síðan dreifst yfir lengri tíma. Margir framleiðendur komust í vandræði og hættu jafnvel starfsemi og aðrir hafa sameinast. Haustak, sem er einn stærsti framleiðandi þurrkaðra fiskafurða á landinu, lokaði verksmiðju sinni í Fellabæ í lok árs 2015 og einbeitir sér nú að rekstrinum á Reykjanesi. HB Grandi hætti að þurrka fisk á Akranesi og keypti sig inn í fiskþurrkunina Háteig á Reykjanesi þar sem fyrir voru Nesfiskur og Skinney-Þinganes. Þegar verst lét lækkaði verð um allt að 60% og á sama tíma styrktist krónan mikið.

Hætt með dýrari afurðir

Víkingur Þór Víkingsson, framkvæmdastjóri Haustaks tekur undir það að betur gangi núna en þá sé líka verið að bera saman við tíma sem menn minnist sem hruns í skreiðarútflutningi. Þegar best lét framleiddi Haustak á Reykjanesi þurrkaðan fisk úr um 90 tonnum af hráefni á dag en þegar sölutregðan stóð sem hæst í Nígería var framleiðslan komin niður í um 40 tonn á dag. Viðbrögðin voru þau að draga saman seglin og var verksmiðjunni fyrir austan lokað. Nú framleiðslan á ný komin í 55-60 tonnum á dag. Hráefnið kemur að langmestu leyti frá Þorbirni hf. og Vísi hf. í Grindavík.

„Þetta er farið að ganga betur en óvissan er alltaf mikil. Það hefur dregið úr framleiðslu á þurrkuðum beinum inn á Nígeríumarkað og þau hafa verið að fara inn á Kínamarkað. Framleiðslu á dýrari afurðum inn á Nígeríumarkað var hætt, það sem við kölluðum kótilettur. Við erum aftur á byrjunarstað með vöruúrvalið, þ.e.a.s. hausar og bein. Við vonum auðvitað að staðan batni enn frekar og við getum alla vega sagt að hún sé snöggtum skárri núna en hún var. Við erum farnir að selja og varan hreyfist,“ segir Víkingur Þór.

Hann segir beina tengingu milli heimsmarkaðsverðs á olíu og skreiðarviðskiptanna. Þegar olíuverð lækki minnkar kaupmátturinn í Nígeríu með tilheyrandi áhrifum á skreiðarkaupin. Nú hafi olíuverð hækkað til muna og skreiðarmarkaðurinn aðeins að koma til.

„Verðin hafa ekki hækkað mikið en salan hefur farið af stað. Við eigum ennþá langt í land með að ná fyrri verðum og það þarf að hafa meira fyrir sölunni en áður.“

60% lækkun

Þegar verst lét tóku framleiðendur á sig gríðarlegt tap á þessum tíma.  Verðið lækkaði um allt að 60% og hækkandi gengi krónunnar var ekki til þess að laga stöðuna. Víkingur Þórir segir að á tímabili hafi verið hreinn taprekstur í greininni. Miklar birgðir söfnuðust upp með tilheyrandi kostnaði. Hann segir að allir hafi tapað miklum fjármunum á þessum tíma, jafnt framleiðendur og kaupendur sem sátu margir með fullar geymslur af vöru sem þeir náðu ekki að selja. Haustak tók þá stefnu að þrauka þessa tíma af og lækka verð á vörunni til að viðhalda markaðnum.

Næran, nígeríski gjaldmiðillinn, stendur núna í 366 á móti einum dollara. Lengi vel var gengið 160 á móti einum dollara. Nígerískir skreiðarkaupmenn þurfa að kaupa dollara fyrir nærur til þess að greiða fyrir skreiðina. Gengismálin hafa því ekki hjálpað upp á sakir heldur.

Á undanförnum mánuðum hefur verð hækkað samfara meiri sölu og skánandi efnahagsástandi í Nígeríu. Á sama tíma hefur gengi íslensku krónunnar lækkað sem skilar framleiðendum meiri verðmætum í dollurum. Verðið hefur hækkað um nálægt 37% frá lægsta punktinum sem það náði og er skreiðarpakkinn nú farinn að skila framleiðendum nálægt 110 dollurum.

Jólavertíðin framundan

Nú eru íslenskir skreiðarframleiðendur að framleiða þurrkaðar fiskafurðir inn á jólamarkaðinn með þeirri miklu eftirspurn sem er á þeim tíma. Svo hægist um í janúar og ekki útilokað að verð lækki í takt við minni eftirspurn. Annað gott sölutímabil er í kringum páskana og sala svipuð og um jólin. Um páskana er ennfremur meiri framleiðsla á Íslandi á miðri vertíð.

Íbúafjöldi í Nígeríu er tæplega 200 milljónir og því marga munna að fæða. Markaður fyrir þurrkaðar fiskafurðir er gríðarlega stór og aðrir sem framleiða inn á þennan markað eru Norðmenn með sína útiþurrkuðu skreið. Framboðið frá Norðmönnum er árstímabundið en íslenskir framleiðendur hafa getið boðið upp á afhendingar á öllum tímum ársins. Nígeríumenn kjósa líka inniþurrkaða skreið fram yfir útiþurrkaða.

Ein verksmiðja fyrir þrjú fyrirtæki

Í næsta húsi við Haustak er Laugafiskur sem þrjú öflug útgerðarfélög standa að baki, þ.e. Nesfiskur í Garði, Skinney-Þinganes og loks HB Grandi sem keypti þriðjungshlut í fyrirtækinu á síðasta ári fyrir 450 milljónir króna. Áður hafði HB Grandi starfrækt Laugafisk á Akranesi en starfsemin lagðist af vorið 2017. Laugafiskur, eins og Haustak, er eitt þeirra fyrirtækja á Suðurnesjum sem byggja starfsemi sína á samnýtingu á jarðvarma. Þegar allt verður komið í fullan gang hjá Laugafiski er stefnt að því að framleiðslugetan verði 30.000 tonn á ári.

Theodór Ingibergsson, framkvæmdastjóri Laugafisks, segir að unnið sé að því að auka framleiðslugetuna. Húsið sem verksmiðjan er í var byggð 2011 og er unnið að endurbótum á því til að unnt verði að taka á móti meira hráefni. Hann segir að kosturinn við staðsetninguna sé jarðvarminn og fjarlægðin frá mannabyggðum og vísar þar til deilna sem hafa risið vegna starfsemi fiskþurrkunar í miðri byggð. Theodór segir að það hafi verið orðið tímabært að fjárfesta í nýrri verksmiðju og búnaði og niðurstaðan hafi orðið sú að byggja eina verksmiðju fyrir þrjú fyrirtæki.

Framleiðslugetan var 7.000 tonn og fer upp í um 30.000 tonn þegar verksmiðjan verður fullkláruð. Ágætt framboð er af hráefni til fiskþurrkunar frá þessum þremur sjávarútvegsfyrirtækjum en auk þess kaupir Laugafiskur afurðir af fleiri fiskvinnslum á svæðinu.

25 manns starfa við fiskþurrkunina og útlit er fyrir að þeim fjölgi.

„Markaðurinn hefur verið í ákveðinni lægð og ekki kominn í sömu hæðir og hann var. En hann hefur vissulega tekið við sér. Núna er jólamarkaðurinn framundan og þá hækkar verðið. Í kjölfarið hefst rigningartímabil í Nígeríu og þá dettur markaðurinn niður. Það er vonandi að verðið stígi upp í framtíðinni en ég veit ekki hvort við náum sömum hæðum og áður.“