mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Salan dregst saman hjá Aker Seafood

18. ágúst 2009 kl. 15:00

Salan hjá Aker Seafood dróst saman á fyrri árshelmingi ársins 2009 þar sem verð á hvítfiski hefur fallið verulega.

Rekstrartekjur félagsins á þessu tímabili voru 1,35 milljarðar norskra króna eða um 27 milljarðar íslenskra króna og lækkuðu um 10% miðað við sama tíma í fyrra.

Samdrátturinn var aðallega í starfsemi í heimalandinu Noregi og byggðist að mestu leyti á verðlækkun á hvítfiski, einkum þorski að sögn talsmanna fyrirtækisins. Aker Seafood veiddi mun meira af ufsa en á sama tíma 2008. Þrátt fyrir framleiðsluaukningu minnkaði sala fyrirtækisins um 18%.

Haft er eftir framkvæmdastjóra félagsins að þeir eigi eftir að veiða innan við 55% af þorskkvóta sínum. Það ætti að vera góður grunnur fyrir starfsemina seinni hluta árs. Þá er félagið að fjárfesta í nýjum togara og frekari endurnýjun skipa er fyrirhuguð á árinu sem leiða á til hagkvæmari reksturs.

Heimild: IntraFish