sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Samfelld makrílvinnsla hjá Síldarvinnslunni

13. september 2018 kl. 15:00

Beitir NK landar í Neskaupstað. Mynd Hákon Ernuson.

Að undanförnu hafa borist fréttir af mikilli síld út af Austfjörðum

Að undanförnu hefur verið samfelld makrílvinnsla í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, segir í frétt fyrirtækisins.

Verið var að ljúka við að vinna afla úr Bjarna Ólafssyni AK fyrir hádegi og þá hófst vinnsla úr Beiti NK sem kominn var með 950 tonn úr Smugunni.

Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu, segir að vinnslan gangi afar vel.

„Vinnslan hefur verið samfelld og hráefnið er sífellt betra. Fiskurinn er stinnur og fallegur og átulaus. Það er í reyndinni 100% nýting á afla skipanna. Það fer að síga á seinni hluta makrílvertíðarinnar hjá okkur og þá snúa menn sér að síldinni,“ segir Jón Gunnar.

Að undanförnu hafa borist fréttir af mikilli síld út af Austfjörðum þannig að væntanlega þurfa skipin ekki að sækja hana langan veg þegar veiðar hefjast.