föstudagur, 26. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Samningur við American Seafoods

21. október 2018 kl. 07:00

Vindukerfi frá Naust Marine í verksmiðjunni á Spáni.

NaustMarine á sjávarútvegsýningunni í Pétursborg


Tæknifyrirtækið Naust Marine er um þessar mundir að afhenda vindukerfi til American Seafoods, eins stærsta sjávarútvegsfyrirtækis Bandaríkjanna. Fyrirtækið stundar veiðar á Alaskaufsa með 5 stórum frystitogurm frá Dutch Harbour í Alaska. Samningurinn er nokkuð stór en þó fylgdi honum ekki togvindur því NaustMarine hafði áður selt þær til fyrirtækisins fyrir þetta sama skip.

gugu@fiskifrettir.is

Helgi Kristjánsson, sölustjóri hjá Naust Marine, segir samninginn við American Seafoods hljóða upp á nálægt 1,2 milljónir evra. Sama útgerð hefur gert tilboð í sams konar búnað í annað skip á þess vegum með afhendingu frá NaustMarine eftir sex mánuði. Naust Marine hefur verið  með söluskrifstofu í Seattle síðan í nóvember 2011 og er því með góðar tengingar við helstu sjávarútvegsfyrirtækin á þessum slóðum.

„Gangi þessi sala eftir verður American Seafoods búið að setja upp vindubúnað frá okkur í öll stóru  skipin sem þeir gera út. Þetta þýðir að búið er að fjarlægja allar glussavindur úr  5 stórum togurunum sem þeir gera út og setja upp rafmagnsvindur frá okkur í staðinn,“ segir Helgi.

Allt eru þetta um og yfir 100 metra löng skip, sem veiða allt að 600 tonnum á dag og eru með 135-140 manns í áhöfn. Helstu afurðir eru flök og surimi, fiskmarningur unninn úr Alaskaufsa.

Jafnframt hafa öll þeirra skip, sex að tölu, Autogen kerfi frá NaustMarine sem er rafalstýring til  samkeyrslu og aflstýringar á rafölum og jafnvel ljósavélum eftir þörfum.

NaustMarine hefur selt 120 spilkerfi sem eru í  notkun í skipum víðs vegar um heiminn.

Olíusparnaður upp á tugmilljónir króna

„Spilin sem voru ný í skipunum fyrir 25-30 árum hafa slitnað og komið er að endurnýjun. Það er ekki inni í myndinni hjá þessum fyrirtækjum að setja upp glussakerfi heldur kjósa þau rafmagnskerfi. Það sem einkum ræður eru umhverfissjónarmið og olíusparnaður. Hreinn olíusparnaður með uppsetningu á rafmagnskerfum getur numið um 200.000 dollurum á ári fyrir þessi stóru skip. Fyrir nokkrum árum skiptum við um kerfi í 142 metra löngum togara, Willem van der Zwan frá Hollandi. Þar áætluðu menn að sparnaðurinn næmi 250.000 evrum á ári,“ segir Helgi.

Að auki fylgi rafmagnskerfunum  minni viðhaldskostnaður og lægri niðursetningarkostnaður borið aman við glussakerfi. Skipin verði hljóðlátari og hættan á því að glussi fari í sjóinn springi rör er út úr sögunni. Háar sektir og viðurlög er við því hvarvetna.

NaustMarine var stofnað upp úr Rafboða 1993 og hefur aldrei boðið upp á annað en rafmagnsvindur. Framan af gat róðurinn verið erfiður, að sögn Helga, þar sem greinin þekkti ekki annað en glussakerfi,  Nú eru rafmagnsvindur í 90-95% allri nýsmíði togara. Mörg þeirra fyrirtækja sem framleiddu glussakerfi áður hafa skipt yfir í framleiðslu á rafmagnskerfum. Samkeppni í þessum geira sé því hörð. Þarna snúist allt um að vera samkeppnishæfir í verðum en gæðin skipta ekki síður miklu máli.

Helgi segir það vinna mikið með Naust Marine í samkeppni við stærri fyrirtæki að það er sveigjanlegt og getur unnið með kaupendum að réttu lausninni. Þetta eigi ekki síst við í eldri skipum þar sem verið er að fjarlægja gamalt kerfi fyrir nýtt og rýmið um borð setur vissar takmarkanir við niðursetningar og endurbætur.

Öll hönnunin á stjórnkerfunum er gerð af af tæknifræðingum NaustMarine í Hafnarfirði og vindurnar sjálfar af verkfræðingum Naust Marine á Spáni, sem er nýlegt fyrirtæki, að mestu í eigu Naust Marine á Íslandi . Vindurnar eru framleiddar af undirverktaka á Spáni, undir eftirliti starfsmanna á vegum Naust Marine á staðnum.

Framleiðsla í Rússlandi til skoðunar

„Það er margt í gangi í Rússlandi og við sjáum mikla möguleika  í samvinnu við KNARR hópinn. Við erum komnir inn í Norebo verkefnið þar sem eru undir sex skip eða fleiri. Við erum líka með talsvert af kerfum í eldri skipum í Rússlandi sem sett hafa verið niður á nokkrum síðustu árum. Við höfum því reynslu af því að skipta við Rússana og höfum góða reynslu af því,“ segir Helgi.

Helgi segir að NaustMarine sé einnig að skoða það að vera með hluta af framleiðslunni á vindum í Rússlandi. Ljóst sé að með því að vera með framleiðslu í landinu sé greiðari aðgangur til dæmis að ríkisverkefnum.

Helgi var skipstjóri áður og var lengst af á fyrsta skuttogaranum í Reykjavík sem var Karlsefni RE 24. Hann byrjaði á honum 1976 og var þá 22 ára og yngsti skipstjóri sem hafði verið á togara á Íslandi. Helgi var á Karlsefninu til 1988 þegar hann fór til Noregs að sækja nýjan togara sem hét Haraldur Kristjánsson HF og var í eigu Sjólastöðvarinnar, sem nú heitir Helga María AK. Ári síðar gerðist hann útgerðarstjóri hjá Sjólastöðinni og hefur að mestu leyti verið á landi eftir það, fyrir utan 1 ár sem skipstjóri á Hoffelli SU.

„Ég er með eigin bát núna sem ég ræ á handfæri á vorin ásamt því að vinna við sölustörf hjá Naust Marine. Ég hef voðalega gaman af því að fara á skak, en er  líka alltaf hálffeginn þegar því er lokið,“ segir Helgi.