sunnudagur, 21. október 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Segir búnað AkvaFuture uppfylla allar kröfur

Svavar Hávarðsson
11. janúar 2018 kl. 09:54

Lokaðar kvíar AkvaFuture við Sæterosen í Nordland í Noregi. Mynd/AkvaFuture

Rögnvaldur Guðmundsson, framkvæmdastjóri AkvaFuture, gerir athugasemd vegna fréttatilkynningar Landssambands veiðifélaga, en fjallað er um hana í Fiskifréttum í dag.

Í fréttatilkynningu LV eru gerðar athugasemdir við áform Akvafuture um 20.000 tonna fiskeldi í Eyjafirði, en Fiskifréttir fjölluðu um áformin í ítarlegri úttekt nýlega. Landsambandið telur ótímabært með öllu að ráðast í umrædda framkvæmd.

Þar segir að af matsáætlun megi ráða að eldiskvíar fyrirtækisins hafa verið notaðar í skamman tíma í Noregi og lítil reynsla komin á hversu fiskheldar þær eru. Sá búnaður sem stendur til að nota (svokallaðar lokaðar kvíar sem byggir á tækni AkvaFuture) hafi ekki verið prófaður við íslenskar aðstæður. Tilgreindur búnaður sé aðeins gefinn upp fyrir ölduhæð að tveimur metrum og „telur Landssambandið að slíkan búnað verði að meta mjög ótraustan við íslenskar aðstæður.“

„Það er óforsvaranlegt með öllu að ráðast í stórfellt sjóeldi á allt að 10 milljónum laxa í svo veikburða búnaði, sem engin reynsla er komin á við íslenskar aðstæður, í námunda við helstu laxveiðiár á Norður- og Austurlandi. Landssambandið telur að í ljósi þess að engin reynsla er á notkun þessa kerfis í sjókvíaeldi við Ísland, verði að meta hættu á slysasleppingum frá eldinu með sama hætti og um hefðbundnar sjókvíar sé að ræða,“ segir í tilkynningunni.

Þróun í áratug
Rögnvaldur segir hins vegar að AkvaDesign AS, móðurfélag AkvaFuture ehf. hafi undanfarinn áratug unnið að þróun búnaðar sem er í raun byltingarkenndur þegar kemur að sjókvíaeldi.

„Tilraunaeldi hófst árið 2012, en framleiðsla í stórum stíl hófst á síðasta ári og höfum við framleitt um 2.000 tonn af laxi í lokuðum kvíum. Búnaðurinn er vottaður af norska staðlinum NS6415 en íslenskar reglugerðir um búnað sem notaður er við eldi á Íslandi byggja á þeim staðli,“ segir Rögnvaldur.

Hann segir ennfremur að búnaðurinn sem AkvaDesign hefur hannað og þróað sé gefinn út fyrir allt að tveggja metra ölduhæð. Nú rétt fyrir áramót fengum við skýrslu frá Vegagerðinni um öldufarsreikninga í innanverðum Eyjafirði. Í samantekt skýrsluhöfunda kemur fram að: „50 ára hafalda er á bilinu HS = 1,1-1,8 m á fyrirhugðum eldissvæðum og 50 ára vindalda á bilinu HS = 1,4 – 2,0 m.“

Aftakaveður
„Síðastliðna tvo mánuði hefur tvisvar sinnum skollið á aftakaveður með vindhviður yfir 40m/sek á því svæði sem eldiskvíar okkar eru staðsettar hér í Noregi og hafa þær staðist þann vindstyrk og þá vindöldu sem fylgdi stormunum algerlega án skakkafalla,“ segir Rögnvaldur og bætir við hvað varðar hættu á slysasleppingu, að þá sé búnaðurinn sem AkvaFuture notar mjög traustur „og á því tímabili sem búnaðurinn hefur verið í notkun (6 ár) hefur ekki sloppið fiskur úr kvíunum.

„Eitt stærsta umhverfisvandamál í fiskeldi í opnum sjókvíum er hættan á smiti frá laxalús og eru þegar dæmi um það á Íslandi að meðhöndla hefur þurft fisk með lyfjum eða öðrum efnum til að eyða lúsinni. Það hefur verið sýnt fram á það með rannsóknum sem stýrt er af norsku dýralæknastofnuninni (Norsk veterinærinstitutt) að laxalús þrífst ekki í kvíunum frá AkvaDesign,“ segir Rögnvaldur sem óskar eftir samráði og samvinnu heimafólks og hagsmunaaðila á þeim stöðum sem fyrirtækið sækir um leyfi til laxeldis.

Við leggjum mikla áherslu á að vera í sátt við umhverfið og höfum fiskivelferð og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi í allri okkar starfsemi. Við sækjum um allt að 20.000 tonna framleiðslu í Eyjafirði, en það mun taka tíma að byggja upp þá stærð af starfsemi, jafnvel allt að 5-8 ár,“ segir Rögnvaldur og bendir jafnframt á að það séu ekki 10 milljónir fiska í 20.000 tonna framleiðslu eins og fullyrt sé í tilkynningu LV; þeir gætu orðið fjórar milljónir á ákveðnum tímabilum, ekki fleiri.