föstudagur, 19. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Segir vanta meiri kraft í vertíðina

20. mars 2019 kl. 12:42

Vestmannaey VE. MYND/Guðmundur Alfreðsson

Skipstjórinn á Vestmannaey VE telur að fiskgengdin við Vestmannaeyjar sé ekki jafn mikil og verið hefur síðustu ár

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey VE, segir að sér finnist vanta meiri kraft í vertíðina í Vestmannaeyjum. Hann telur að fiskgengdin sé ekki jafn mikil við Eyjarnar og verið hefur síðustu ár. 

Síldarvinnslan hf. greinir frá þessu á vef sínum og ræðir við Birgi Þór.

„Það hefur verið góð veiði en ekki aðgæsluveiði eins og undanfarin ár,“ segir hann.

„Hins vegar er alltaf fiskur að bætast við það sem fyrir er. Ýsan er til dæmis ekki komin að neinu ráði en í fyrra hófst ýsuveiði fyrst í lok mars. Undanfarin ár hefur fiskurinn gengið á miðin mjög snemma en hins vegar var ekkert óalgengt hér áður að vertíð hæfist um miðjan mars. Við höfum gjarnan verið úti í um tvo sólarhringa að undanförnu en þrálátar brælur hafa truflað veiðarnar verulega. Við fórum til dæmis út um hádegi sl. sunnudag og komum inn um hádegi í gær. Aflinn var um 75 tonn sem er bara mjög gott. Almennt má því segja að vertíð sé í fullum gangi en miðað við síðustu ár mætti krafturinn í henni vera dálítið meiri,“ segir Birgir Þór.