sunnudagur, 16. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Selainnflutningsbann ESB hefur engin áhrif á Íslandi

8. maí 2009 kl. 12:00

,,Selaafurðir hafa ekki verið fluttar frá Íslandi til Evrópusambandsins í mörg ár þannig að bannið hefur engin bein áhrif á okkur,” sagði Pétur Guðmundsson frá Ófeigsfirði, formaður Samtaka selabænda, í samtali við Fiskifréttir í tilefni af því að Evrópuþingið samþykkti í þessari viku bann við viðskiptum með selaafurðir innan Evrópusambandsins.

,,Það litla sem flutt hefur verið út héðan af selskinnum hin síðari ár hefur farið til Grænlands. Þar er eingöngu um að ræða skinn af landsel sem Grænlendingar nota í ákveðinn hluta af þjóðbúningi sínum. Lítið er af landsel við Grænland og þess vegna sækjast þeir eftir þessum skinnum. Hér á landi falla ekki til nema nokkrir tugir skinna af landsel á ári þannig að þessi útflutningur hefur ekki áhrif á þjóðarhag. Skinn af útselnum eru hins vegar nýtt hér innanlands af handverksfólki í alla mögulega hluti,” sagði Pétur.

Því má bæta við að selveiði hérlendis er orðin afar lítil, aðeins voru veiddir 384 selir á árinu 2007, samkvæmt skýrslu Hafrannsóknastofnunar.