þriðjudagur, 21. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sérúthlutanir endurskoðaðar

3. maí 2019 kl. 08:40

Fimm manna starfshópur fær hálft ár til að endurskoða fyrirkomulag 5,3 prósenta byggða- og jöfnunarpottsins. Þóroddur Bjarnason stýrir hópnum.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað fimm manna starfshóp til að endurskoða hvernig ríkið ráðstafar þeim 5,3 prósentum aflaheimilda sem nú er varið í strandveiðar, byggðakvóta, línuívilnun, rækju- og skelbætur og frístundaveiðar.

„Starfshópnum er meðal annars falið að líta til þess hvort þeim markmiðum sem að var stefnt með þessum aflaheimildum hafi verið náð og eftir atvikum leggja til breytingar,“ segir í tilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. 

„Jafnframt skal starfshópurinn leitast við að tryggja að mögulegar breytingar hámarki virði þeirra verðmæta sem felast í umræddum aflaheimildum.“

Tekið er fram að starfshópurinn eigi að líta sérstaklega til þeirrar stefnu sem mörkuð er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, þar sem segir að vega þurfi og meta fyrirkomulag þeirra aflaheimilda sem ríkið ferð með forræði yfir „með það að markmiði að tryggja betur byggðafestu og nýliðun.“

Formaður hópsins verður Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri. Ásamt honum eru í hópnum þau Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, alþingismaður, Bergþóra Benediktsdóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra, Gunnar Atli Gunnarsson, aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og  Þorsteinn Víglundsson, alþingismaður.

Hópnum er gert að hafa samráð við helstu aðila sem hagsmuna hafa að gæta, þar á meðal Landssamband smábátaeigenda, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök smærri útgerða.

Hópurinn á að skila greinargerð og tillögum til ráðherra ekki síðar en 1. nóvember 2019.