mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

SF vill láta kanna kosti þess að skipta út krónunni

9. desember 2008 kl. 14:30

Stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva skorar á stjórnvöld að kanna nú þegar kosti þess að taka einhliða upp annan gjaldmiðil í stað krónunnar.

Verði niðurstaða slíkrar könnunar jákvæð fyrir íslenskt efnahagslíf, fólk og fyrirtæki, verði málinu fylgt eftir af stjórnvöldum með gjaldmiðilsbreytingu og hliðarráðstöfunum svo fljótt sem aðstæður leyfa.

Ályktunin var samþykkt einróma á stjórnarfundi síðastliðinn föstudag.

Greinargerð:

Frá því að horfið var frá fastgengisstefnu árið 2001 hefur gengi íslensku krónunnar í raun verið stýrt með háum vöxtum. Þetta varð til þess að gengi krónunnar var alltof hátt skráð um margra ára skeið, sem leiddi að lokum til skipbrots peningamálastefnunnar.

Nauðsynlegt er að grípa hratt til aðgerða til þess að koma á stöðugleika í efnahagslífinu, lækka vexti og afnema gjaldeyrishöft. Koma þarf í veg fyrir að fyrirtæki og heimili komist í þrot vegna mikillar verðbólgu og hárra vaxta og afstýra um leið stórfelldu atvinnuleysi hér á landi.