sunnudagur, 26. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Síðustu tonnin úr vestangöngu?

13. mars 2018 kl. 13:12

Beitir NK landar í Neskaupstað. Mynd Hákon Ernuson.

Skipstjórinn á Beiti telur að veitt sé úr vestangöngu út af Patreksfirði.

Fyrir nokkrum árum hefði þurft að segja mönnum það tvisvar að síðustu farmar loðnuvertíðarinnar fengjust samtímis á Skjálfanda og út af Patreksfirði, að því er kemur fram á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Beitir NK lauk veiðum í gær en hann fékk 1.400 tonn út af Patreksfirði. Vilhelm Þorsteinsson EA var á sömu slóðum og Beitir. Hann fékk 300 tonn í fyrsta kasti en sprengdi síðan og er á leið til Neskaupstaðar rétt eins og Beitir.

Polar Amaroq kastaði tvisvar á Skjálfanda í gær og fyllti, en áður höfðu Polarmenn fyllt frystilestar skipsins. Hrognafylling loðnunnar sem veiðist fyrir norðan er 21% en loðnan er heldur smá. Gert er ráð fyrir að Polar Amaroq landi á morgun.

Heimasíða Síldarvinnslunnar hafði samband við Sturlu Þórðarson, skipstjóra á Beiti, í morgun, en þá var skipið statt út af Skagafirði.

„Það fengust mjög góð köst þarna út af Patreksfirði. Sumir fengu of mikið og sprengdu. Þetta er fínasta loðna sem þarna er á ferðinni og hún ætti að henta vel til hrognatöku. Þarna er um vestangöngu að ræða og menn kláruðu líka vertíðina í fyrra á þessum slóðum. Við förum hringinn í kringum landið í þessum túr, en við lönduðum að vísu í Helguvík um helgina,“ sagði Sturla.

Gert er ráð fyrir að skipin haldi til kolmunnaveiða vestur af Írlandi nú þegar veiðum á  loðnuvertíð er lokið. Bjarni Ólafsson AK hélt til kolmunnaveiða í gær.