mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Síld úr Norðursjó selst á 70-85 krónur íslenskar á kíló

25. maí 2009 kl. 15:00

Fyrsta síldin úr Norðursjó seldist á fiskmörkuðum í Noregi á 3,75-4,45 norskar krónur á kílóið (70-85 krónur íslenskar). Á sama tíma og fréttir berast um fyrstu veiðar á norsk-íslensku síldinni í íslenskri lögsögu eru veiðar nú hafnar á síld í Norðursjónum.

Á þessu fyrsta uppboði í Noregi fengu sjómenn og útgerðarmenn heldur lægra verð fyrir Norðursjávarsíldina en þeir höfðu búist við fyrirfram. Þetta verð þætti þó vísast gott á Íslandi. Um 700 tonn voru boðin á markaðnum en aðeins 250 tonn seldust. Restin var boðin á næsta uppboði samdægurs.

Afli á bát er ekki mikill eða í kringum 100 tonn. Fiskmarkaðurinn með síld þykir fara heldur hægt af stað miðað við fyrri ár. Ástæðan er sögð vera sú að margir bátar eru að bjóða of lítinn afla. Þá er talið að allir síldarverkendur séu ekki komnir í gang ennþá.

Ládeyða á markaðnum kann að leiða til þess að einhver skip láti ekki úr höfn og bíði þar til meira líf færist í síldarmarkaðinn.

Heimild: Fiskeribladet/Fiskaren