miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Síldarvinnslan mótmælir frásögnum af smáýsudrápi

11. desember 2009 kl. 10:39

Framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað mótmælir fréttaflutningi af meintu stórfelldu smáýsudrápi sídlarflotans í Breiðafirði og segir þennan orðróm algjörlega úr lausu lofti gripinn.

Á heimasíðu Síldarvinnslunar segir Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri m.a.:

,,Vegna þeirrar umfjöllunar sem átt hefur sér stað í fjölmiðlum að undanförnu um meint smáýsudráp síldarflotans í Breiðafirði vill undirritaður koma eftirfarandi á framfæri:

Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað hefur tekið á móti langmestu af síld á vertíðinni, hún hefur öll verið veidd í Breiðafirði.  Nánast öll síldin hefur farið til manneldisvinnslu, þar er hún tekin yfir flokkara og bolfiskur skilinn frá, settur í kör og vigtaður samkvæmt reglum fiskistofu.  Eftirlitsaðilar fiskistofu hafa fylgst með flokkun og vigtun aflans. Landa hefur verið landað 13.500 tonnum hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað af 36.000 tonna heildarafla sem gerir rúm 37% af veiðinni á vertíðinni.  Þar af hefur meðafli í ýsu verið rúm 3.800 kg.”

Gunnþór segir að fréttaflutningur af þessu tagi sem hér sé til umræðu virðist eingöngu settur fram með það að markmiði að vega að orðstír sjómanna, starfsfólks og fyrirtækja sem byggja afkomu sína á viðkomandi veiðiskap. ,,Mér finnst starfsfólk Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og annarra fyrirtækja sem vinna við gjaldeyrissköpun úr síldinni ekki eiga skilið að sitja undir rangfærslum sem þessum,” segir Gunnþór Ingvason.

Sjá nánar tölum um síldarafla og meðafla skipa Síldarvinnslunnar á vef fyrirtækisins, HÉR.