mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Síldin: Farsælt samstarf skilaði þessum árangri

12. nóvember 2009 kl. 11:27

,,Það má fullyrða að farsælt samstarf sjávarútvegsráðuneytisins, Hafrannsóknarstofnunar og uppsjávarútgerðanna hafi leitt til þess að þó þetta aflamark í síld var gefið út. 15 þúsund tonna rannsóknarkvótinn, sem ráðuneytið gaf út, gerði útgerðarfyrirtækjunum og Hafrannsóknarstofnun kleift að fara í útbreiðslukönnun og síðan í stofnmælingu sem staðfesti að stofninn var mun stærri en síðustu tvær mælingar bentu til.”

Þetta segir Vilhjálmur Vilhjálmsson deildarstjóri uppsjávarsviðs HB Granda á heimasíðu fyrirtækisins í tilefni þess að sjávarútvegsráðherra hefur gefið út 40.000 tonna byrjunarkvóta til veiða á íslenskri sumargotssíld. Alls koma um 4.500 tonn í hlut skipa HB Granda. Stefnt er að því að hvert hinna þriggja uppsjávarveiðiskipa félagsins fari eina veiðiferð á miðin í Breiðafirði og er áætlað að Faxi RE haldi til síldveiða í kvöld.

Að sögn Vilhjálms veiddu skip félagsins um 18.200 tonn af íslenskri sumargotssíld á síðustu vertíð eða fjórfalt meira magn en sem nemur úthlutuðu aflamarki nú. Byrjunarkvótinn nú sé hins vegar ákaflega mikilvægur og menn voni það besta og að hægt verði að auka við kvótann síðar í vetur.

Vilhjálmur dregur ekki dul á að full ástæða sé til þess að hafa miklar áhyggjur af sýkingunni í síldinni og rannsóknum á henni, útbreiðslu hennar og afleiðingum sé hvergi nærri lokið.

,,Samkvæmt sýnum, sem send hafa verið Hafrannsóknarstofnunar, er sýkingarhlutfallið síst minna en í fyrra. Vísindamenn telja að öll sýkt síld drepist en þeir sem starfa við vinnsluna eru sumir þeirrar skoðunar að gróin sár og blettir, sem þeir hafa orðið varir við í síldinni, bendi til þess að sú síld hafi lifað sýkinguna af,“ segir Vilhjálmur á heimasíðu HB Granda.