miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Síldin gefur sig ekki í nótina

22. maí 2009 kl. 12:02

en ágætisveiði í troll

,,Við erum að landleið með öngulinn í rassinum. Síldin hagar sér þannig að það er vonlaust að ná henni í nót. Við þurftum því að fara í land til þess að sækja trollið sem er rétta veiðarfærið við þessar aðstæður,” sagði Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Birtingi NK frá Neskaupstað í samtali við Fiskifréttir nú fyrir hádegið.

,,Síldin kemur ekki upp nema í tvo til þrjá tíma yfir lánættið og er þá mjög kvik þannig að erfitt er að komast að henni. Við sáum hana vaðandi og köstuðum á hana en náðum henni samt ekki. Við erum búnir að reyna veiðar með nótinni í þrjár nætur en játuðum okkur svo sigraða,” sagði Hjörvar.

Að sögn Hjörvars liggur síldin meginhluta sólarhringsins það neðarlega í sjónum að ekki er unnt að ná henni með nót en hins vegar er hún í góðu trollfæri. Hornafjarðarbátarnir Ásgrímur Jónsson SF og Jóna Eðvalds SF eru á tvíburatrolli og hafa náð árangri í veiðunum og það sama má segja um Bjarna Ólafsson AK eftir að hann skipti af nótinni yfir á troll. Bjarni er væntanlegur til Norðfjarðar með afla í dag. Fimmti báturinn sem byrjaður er síldveiðar, Álsey VE, er með nót og hefur ekkert fengið í hana frekar en hinir.

Veiðisvæði bátanna er norðaustast í íslensku lögsögunni í námunda við Jan Mayen lögsögumörkin. Hjörvar sagði að síldin væri horuð ennþá og full af átu en meiningin væri að reyna að vinna eitthvað af henni til manneldis, bæði á Hornafirði og í Neskaupstað.